25.3.08

Hlé

Auðvitað var síðasta færsla hreint ekki skrifuð í gærkveldi, heldur í fyrrakvöld. Svo allt sé nú kórrétt í annálum. Og nú erum við komin heim, eftir langan, langan bíltúr í gær. Sem gekk furðuvel. En mér líður eins og ég sé alveg næfurþunn eftir góða verslunarmannahelgi.

Og ég ætti að vera að taka til. Það sést ekki í gólfið nema á stöku stað og næstum ekkert er á sínum. En það er svo ákaflega langt frá því að ég nenni því. Hinn nýskírði situr í ömmustólnum sínumog er búinn að stækka og mannast alveg fáránlega mikið um páskana. Nú situr hann bara og brosir upp í bókahillurnar. Honum kippir nefnilega í kynið báðumegin og hann heilsar bókahillum gjarnan eins og um fólk væri að ræða og frá fæðingu hefur hann mænt löngunaraugum upp í bókahillurnar í stofunni, á Karamazov-Bræðurna og fleira spaklegt. Verður líklega bókaormur og fræðimaður.

Annars er frá allt of mörgu og miklu að segja. En líklega er best að reyna að grynnka eitthvað á draslinu áður en maður ræðst í það.

Engin ummæli: