23.6.08

Nýjustu fréttir úr austrinu

Mér til mikils léttis sé ég á stuttri yfirferð um bloggheima að fleiri eru í bloggletikasti en ég. Þetta er reyndar engin leti, heldur annríki í bland við undarlega staðsetningu á interneti heimilis foreldra minna sem býr, sem fyrr, í kjallaraholunni. En þar hef ég einmitt huxað mér að hefja ritstjórnarstörf á mánudeginum komanda og ættu þá birtingar á þessum fjölmiðli að komast í nokkurn veginn eðlilegt horf.

Helst er það í fréttum að um miðjan eftirmiðdaginn áskotnaðist mér þessi líka forkunnarfína barnapía og síðan hún kom er ég búin að, m.a., afreka að fara í bað og afhára á mér lappirnar. En eins og grasekkjur vita er þetta allt annað en sjálfsagður lúxus nema kannski svona tvisvar á ári.

Rannsóknarskip er í Reykjavíkinni að jafna sig eftir hálsskurðinn og ég má til að birta smessið sem hann sendi mér í fyrradag:

Kyngi stórborgum.
Slefa eins og andskotinn á efsta degi.
Þrumugnýr í eyrum.
Endalaust orðbragð á dofinni tungu.
Í dag er ég feginn að vera einn í helvíti.

Eins og sést er Rannsóknarskip skáldmæltur í þjáningum sínum en er farið að líða skár núna. Gat meira að segja talað aðeins við dóttur sína í morgun. Og ætlar að koma til okkar á föstudaginn. Og miklir djöfuls svakalegir fagnaðarfundir verða það nú, ég ætla að sofa fram að hádegi, minnst, á laugardaginn. 

Á morgun stefnum við Sissú hins vegar í sund með Freigátuna, en Bára frænka ætlar að passa Hraðbátinn á meðan. Og Smábáturinn á afmæli, við ætlum að hringja og syngja. Hann verður tólf ára. HANN VERÐUR TÓLF ÁRA! Dísuss. Þetta verður allt farið að heiman áður en maður getur snúið sér við.

Meira í síðasta lagi eftir svona viku.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Að kyngja stórborgum - það gerast örugglega ekki betri lýsingarnar á þeirri þjáningu sem fylgir því að vera að jafna sig eftir svona aðgerð!

Sendum hlýjar kveðjur á austurlandið fagra sem við höfum ekki séð í eitt og hálft ár - vonandi gengur allt vel.

Ps. Kannast vel við þetta með "sjæneríið" eins og að raka á sér fótleggina, hjá mærðum með mörg börn - það gerist svona tvisvar á ári!!

Elísabet Katrín sagði...

Ég er sennilega með samúðar-hálsbólgu og raddleysi með honum Árna...við erum náttúrulega voða tengd ;)
Kannast við bloggletina sem er að ganga um þessar mundir...allt í góðu svona yfir hásumarið :) knús á ykkur