21.10.08

Síst einleikið

Nú í kreppubyrjun virðist óheppnin elta heimilistækin hjá okkur. Þurrkarinn búinn að vera í lamasessi en fékk bót meina sinna í gær (fyrir formúgu) en í morgun vaknaði ísskápurinn með hita og Freigátan líka, honum til samlætis. Klósettið er þar að auki að tapa sér í sírennslinu. Svo ég fæ að fórna næstsíðasta jógatímanum til að vera heima með báða ormana, matinn út á svölum og aldrei að vita hvort verður hægt að sturta niður úr klósettinu næst þegar þarf. 

Ég veit að nú eiga allir að æfa sig í að "vera án." En ég er hrædd um að ég sé að falla á fyrsta kreppuprófinu. Nenni hvorki að vera án ísskáps né klósetts. Nenni heldur eiginlega ekki að vera með eitthvað visa-rað-kjaftæði, svo ég býst við að gera það sem má alls ekki, taka út sparifé og eyða því snarlega. En hjól hagkerfisins stoppa þá kannski ekki alveg endanlega á meðan.

---

Konan á símanum hjá ísskápaviðgerðarstofnun ríkisins var ekki tilbúin til að úrskurða ísskápinn látinn í gegnum síma, þrátt fyrir háan aldur. (Ísskáps, ekki eiginn.) Þvert á móti sagði hún, eftir lýsingar mínar á sjúkdómseinkennum, að líklega væri bara belað í honum termóstatið og ég fæ viðgerðarmann á morgun. Svo þetta kostar líklega ekki nema hálfa formúgu. Og svo er von á málurum í sameignina. Þeir hafa hins vegar ekki sést enn, þannig að sá greiðsluseðill má víst bíða eitthvað. En ég færði samt peninga í startholurnar. Eitthvað segir mér nefnilega að þetta sé ekki rétti tíminn fyrir vísa rað eða yfirdrátt.

Engin ummæli: