6.1.09

Dáindi

Það er ljóst að nú verður hart í ári og þröngt í búi og allt það. Ekki síst á heimilum þar sem verið er að reyna að framfleyta fimm manns og borga af okurlánum á yfirprísaðri íbúðarholu með einu fæðingarorlofi af kennaralaunum og einu námsláni.

En hinu verður ekki neitað.

Dagurinn í dag var dáááásamlegur og ber tímanum fram í ágúst fögur fyrirheit.

Fyrst skiptumst við hjónin á að sofa fram yfir hádegi. Svo hófst dagurinn.
Ég fór í ræktina og duddaði þar við allskyns æfingar fyrir alla vöðvahópa sem ég fann, lengi dax. Var í fyrsta sinn ekkert með hjartað í buxunum um að allt væri grenjandi heima hjá mér eða brjótandi heilann um hvern skrattann ég ætti að galdra í matinn á fimm mínútum þegar heim kæmi. Enda var bara miður dagur og Rannsóknarskip úti að labba með Hraðbátinn. Aðrir vistaðir á viðeigandi stofnunum. Svo var bara komið heim og allir glaðir. Börnunum hjálpað við að rusla rækilega til í íbúðinni. Hangikjet eldað og étið í tilefni þrettándans og meira að segja Siffa bró og Bjarkeyju boðið í mat. Svo fóru allir nema við Hraðbátur út að sprengja afganga og barnahópnum komið í bólið á nokkuð skikkanlegum tíma. Svo tókum við Rannsóknarskip til draslið eftir daginn og matinn. Enginn þreyttur né með taugaáfall.

Á mánudaginn hef ég störf hjá honum Bjarti. Ekki sýnist mér það nú ætla að verða sérlega stressað. Ég ætla að mæta þanga galvösk eftir að hafa skilað Freigátunni á leikskólann sinn og sinna svo verkefnum mínum af kostgæfni. Í heilar 12 vikur.

Og hvað svo? Ætli það verði ekki bara meira letilíf á atvinnuleysisbótum? Kannski eitt og eitt atvinnubótanámskeið? Annars væri mér svo sem trúandi til að fá einhverja dúndrandi vinnu. Fá Góðæri í kreppunni.
Den tid, den suck.

2 ummæli:

Siggadis sagði...

Ohhh - öfund... það verður pottþétt gaman að vinna hjá Bjarti :-)

Nafnlaus sagði...

Hæskan.

Gaman að þú sért að byrja að vinna hjá Bjarti! Geturðu ekki sannfært þá um að ungur upprennandi rithöfundur á Seyðsfirði verði að fá eitthvað algerlega ómissandi starf, svona útsendara höfuborgarinnar á landsbyggðinni? Mig hefur alltaf dreymt um að vinna hjá bókaútgáfu.....

Tíhí.
Bestu kveðjur til familíunnar,
Rannveig