7.3.09

Tíkin – Heimilið – Menningin

Búin að vera að reyna að fylgjast með niðurstöðum prófkjöra, eftir því sem ég nenni. Geri mér enga grein fyrir hvort við erum að sjá breytingar. Veit bara að allir eru að fara á hausinn nema ríkukallarnir. Sem eru það vegna þess að þeir stálu öllum peningunum með reikningskúnstum og eignarhaldsfélögum. Og það er ólöglegt að anda á þá. Smart.

Við hér í míkrókosmós erum annars ekkert að finna fyrir kreppu. Hraðbáturinn kominn með þessa líka fínu eyrnabólgu (þá skrilljónstu í röðinni) og á að fara til háls- nef- og eyrnalæknis að skínandi nýja sýklalyfjakúr loknum. Dagurinn fór annars (fyrir utan skrepp til læknisins eftir morgunjógað) í hin ýmsu heimilisstörf auk þess sem flestir lögðu sig einhverntíma dagsins. Næs, bara. Enda síðasta helgin sem fjölskyldan er öll saman komin í bili. Rannsóknarskip og Smábátur brugðu sér síðan í kvikmyndahús í kvöld og sáu Ístvúdd.

Ég fór hins vegar í Borgarleikhúsið í gær og sá Milljarðamærina. Sem er eitt af uppáhalds leikritunum mínum, þ.e. af þeim sem ég hef lesið, en ég hef aldrei séð það á sviði. Ég var nokkuð ánægð með sýninguna nema hvað mér fannst menn missa sig aðeins í eitthvað artífissjal sjabb á búningum og leikmynd. Ef fólk er fátækt (sérstaklega sé texti sérlega nútímalegur) er alveg eðlilegt að það sé snjáð. Ef það kann ekki að þrífa sig erum við hins vegar komin á einhvers konar hæli. Og ef föt eru bara almennt rifin og tætt erum við komin talsvert aftur í tímann, aftur fyrir tíma nála og spotta. Lúkkið á milljarðamærinni og co. fannst mér flott. Og Sigrún Edda var frábær í sínu hlutverki, eins og reyndar bara allir, fannst mér. (Hlutverk reyndar mjög misbitastæð í þessu verki.) Örlaði reyndar á einhverju Hilmisklámi í hans síðustu útgöngu.

Þetta er skrifað með annað augað á alveg ööööömurlegri mynd. Mæli ekki með The Core.

Engin ummæli: