25.7.09

Þá fer að síga á seinnihlutann í sumarflakkinu. Erum komin aftur í staði Ey-gilsins, en stoppið verður stutt. Á morgun verður lagt á Suðurlandið og verður það tekið í þremur stökkum og komið til höfuðborgar vorrar á þriðjudaginn hvar systir mín hefur þegar endurhafið búsetu í híbýlum vorum.

Og liggjum vér í leti á Austurlandi? Öðru nær. Aldraður faðir vor reis úr rekkju í afturelding og snaraðist upp á hálendi, eitthvurt. Rannsóknarskip, amma-Freigáta og börnin héldu í humáttina á eftir honum um hálfellefuleytið, það þurfti nefnilega að færa bílinn fyrir hann, þaðan sem hann fór upp, þangað sem hann hugðist niður koma. Í leiðinni átti að koma við í Sænautaselinu og láta þau dýr sem það fyrirfinnast fá aðeins fyrir ferðina. Á meðan hljóp Móðurskip 8 kílómetra á velli Vilhjálms og þvær síðan, pakkar og skipuleggur pjönkur fyrir þriggja daga heimferðina.

Og ætlaði örugglega að gera margt og mikið annað... en þar sem hreyfigreindin er ekki upp á marga fiska týndist það á hlaupunum. Best að meinast bara í kaffi eitthvert hérna í Kjaftamyllustrætið...

Engin ummæli: