31.8.09

31.08.2009

Í dag virðast allir vera í svona "að-byrja-í-skólanum" fíling. Allt í einu er háskólasvæðið fullt af fólki og ég varð skíthrædd við að fara út á Háskólatorg áðan. Hætti við Bóksöluna.

Og í dag ætlar OR að selja sinn hlut í HS til Magma.
Á íslensku:
Í dag ætlar Orkuveita Reykjavíkur að selja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja til erlends fyrirtækjarisa sem heitir Magma Energy. Í von um skjótan gróða. Svo hægt sé að halda áfram að bruðla. Aðeins lengur. Hvað gerist þegar hlutabréfakrúsandi útlendingarnir verða búnir að hækka gjaldskrár þannig að ekki verði lengur búandi á Suðurnesjum er síðan ekki vandamál Orkuveitunnar. Greinilega. Skammsýni og fávitaháttur. Ef Steingrímur stoppar þetta ekki á síðustu stundu, hvernig sem hann fer að því, veit ég ekki hvað til hans friðar heyrir.

Mér sýnist allir sem vita um hvað málið snýst vera á móti þessu. Fullt af fólki nennir ekki að kynna sér málið. Enda búið að flækja það, vísvitandi, með allskonar asnalegum skammstöfunum og orðaleppum.

En það sem þetta þýðir er þetta:
Heita vatnið og rafmagnið, sem Íslendingar eiga og hafa hingað til getað notað tiltölulega ódýrt... (samt dýrara en hægt væri vegna flottræfilsháttar orkuveitanna... hefur einhver komin inn í nýja Landsvirkjunarhúsið?)... eru að fara að missa yfirráðin á þessum auðlindum í hendur útlendinga sem ætlast til þess að þessar fjárfestingar skili hagnaði. Og það eins miklum og hægt er að kreista út úr almennum notendum á Íslandi. Næstu 65 árin! Menn hafa ekki völ á öðrum veitum í rafmagni og vatni. Ef menn búa á Suðurnesjum borga menn sín orkuafnot til Magma. Til Kanada. Og ef þetta gerist með orkuveitur víða um land hugsa ég að fullt af fólki flytji í kjölfarið. Ég mun allavega hugsa mig vandlega um.

Og það er strax byrjað. Ekki er hægt að veita stjórnvöldum frest til að finna pening, vegna þess að Magma þarf að segja eitthvað við HLUTABRÉFAMARKAÐINN í dag! Sem sagt, erlendir hlutabréfamarkaðir stjórna því hver á auðlindirnar okkar, núna.

Mér er sama hvernig. Nú þarf að ríkisvæða allt draslið. Strax í dag. Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur eru greinilega fábjánar og ekki treystandi fyrir neinu mikilvægu. Hugsa ekki lengra en nef þeirra nær.

Já, ég er fokkíng brjáluð.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Ekki bara á Suðurnesjum því að Hitaveita Suðurnesja hefur til umráða umtalsverðan hluta Suðurlands. Allavega er Leikfélag Selfoss að borga þeim fyrir rafmagn. Bömmer.