28.10.09

Að lifa október af. 28. dagur.

Jæjah. Þá eru bara tvær konur sem ég þekki bálóléttar og komnar 40+ á leið. Ja, sem ég veit af og er í sambandi við á feisbúkk. Sigga Rósa og Einar Hafberg eignuðust stóran strák í gærkvöldi og sleppur Hraðbáturinn þar með við að vera eini strákurinn í stelpnagerinu þegar við hittum þau og Völu, vinkonu Freigátunnar, og fjölskyldu, um ókomin ár. Hann er feginn.

Ég hef hins vegar verið að glíma við margvíslegar vangaveltur undanfarið og hefi ályktað ýmislegt. Eitt er þetta:

Þegar andófsmaður fær völd breytist ádeilan í áróður.

Þetta er líklega svolítið vandamálið við byltingar.

Horfði annars á Hrunið í gærkvöldi og endurupplifði byltinguna. Annars fannst mér gert gríðarlega mikið úr átökum og ofbeldi en allt of lítið úr því sem máli skipti. Byltingunni sjálfri. Sem fór fyrst að hafa áhrif eftir að hún varð appelsínugul. Satt að segja er ég helst á því að það hafi verið síðasti mótmælafundurinn sem gerði útslagið. Þá var ljóst að útspil Geirs H. Haarde með kosningar um vorið og ályktanir Reykjavíkurdeildar Samfylkingar dygðu ekki til að sefa óánægju almennings. Og svo ræða Guðmundar Andra. Ég fæ enn gæsahúð við tilhuxunina.

Ég held að fráfarandi ríkisstjórn hefði unnið mörg prik með því að viðurkenna að hún færi frá vegna sterkrar kröfu úr samfélaginu. Skoðanakannanir um svipað leyti sýndu að um 70% þjóðfélagsins studdu kröfur mótmælenda. Þó sitt sýndist hverjum um aðgerðirnar. Það er hyggin ríkisstjórn sem lætur að slíkri kröfu. En ég sakna Geirs H. Haarde og Halldórs Ásgrímssonar þegar ég hlusta á baulið í Bjarna Ben og Sigmundi Davíð. Hvílíkir angurgapar. Enda hef ég á tilfinningunni að nú sé restin af fylginu að rjátlast af Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn mun minnka mikið þegar fram kemur almennilegt framboð fyrir hægri græna.

Bleh... Ég ætlaði ekki að missa mig í pólitík í morgunsárið. Þetta er örugglega andi Guðlaugs Þórs sem hefur skilið eftir einhvern óhroða í sál minni með því að vera að þvælast hérna í gær.
Svo er líka kaffilaust.

Engin ummæli: