23.10.09

Ljóð leikritahöfundar (brot)

I
Ég er leikritahöfundur. Ég sýni
það sem ég hef séð. Á mannamörkuðum
hef ég séð hvernig menn ganga kaupum og sölum. Það
sýni ég, ég, leikritahöfundurinn.

Hvernig þeir ganga inn í herbergi hver hjá öðrum með ráðagerðir
eða gúmmíkylfur eða peninga
hvernig þeir bíða standandi á götum úti
hvernig þeir brugga hver öðrum banaráð
fullir vonar
hvernig þeir bindast fastmælum
hvernig þeir hengja hver aðra
hvernig þeir elskast
hvernig þeir verja ránsfeng sinn
hvernig þeir matast
það sýni ég.

Orðin sem þeir kalla hver til annars hermi ég.
Hvað móðirin segir við son sinn
hvað vinnuveitandinn fyrirskiptar vinnuþeganum
hverju eiginkonan svarar manni sínum.
Öll hin biðjandi orð, öll hin skipandi
hin auðmjúku, hin tvíræðu
hin lognu, hin fávíslegu
hin fögru, hin meiðandi
öll hermi ég.

Ég sé snjóflóð steypast fram.
Ég sé jarðskjálfta ríða yfir.
Ég sé fjöll standa á miðjum veginum
og fljót flæða yfir bakka sína.
En snjóflóð eru með hatt á höfðinu.
Jarðskjálftarnir hafa peningaveski í vasanum.
Fjöllin bera sig um í bifreiðum
og fossandi fljótin njóta lögregluverndar.
Það afhjúpa ég.

II
Til þess að geta sýnt það sem ég sé
kanna ég leiklist annarra þjóða og annarra tíma.
Fáein leikrit hef ég umritað af nákvæmni
rannsakað tækni tímabilsins og tileinkað mér
það sem mátti að gagni koma.
Ég kynnti mér lýsingar á hinum voldugu lénsherrum
í verkum Englendinga, þessum auðjöfrum
sem verja til þess ævinni að magna veldi sitt.
Ég kynnti mér hina siðavöndu Spánverja
og Indverjana, meistara fagurra tilfinninga
og Kínverja, sem lýsa lífi fjölskyldnanna
og marglitum örlagavegum borganna.

III
Og svo ört breyttist á minni tíð
útlit húsanna og borganna að eftir tveggja ára fjarveru
var heimkoman ferð til annarrar borgar
og múgur manns breytti um útlit
á fáeinum árum. Ég sá
verkamenn ganga inn um verksmiðjuhlið og hliðið var hátt
en þegar þeir komu út aftur urðu þeir að beygja sig.
Þá sagði ég við sjálfan sig:
Allt breytist og er bundið sínum tíma.
Hverju sjónarsviði gaf ég þess vegna sitt auðkenni
og merkti með ártali hverja verksmiðju og hvert herbergi
eins og bændur brennimerkja fénað til þess að hann þekkist.

Og setningarnar sem sagðar voru
auðkenndi ég einnig svo þær urðu eins og orð
hinna forgengilegu sem skrifuð eru upp
til þess að þau falli ekki í gleymsku.

Það sem konan í vinnusloppnum sagði
álút yfir dreifiblöðunum – á þessum árum
og hvernig kauphallarbraskarar töluðu við ritara sína
með hattinn aftur á hnakka – í gær
– á það setti ég mark forgengileikans
með réttu ártali.

En allt gerði ég að undrunarefni
jafnvel hið alkunna.
Þegar móðirin gaf barni sínu brjóstið
sagði ég frá því eins og enginn mundi trúa mér
og eins og óþekktu fyrirbæri lýsti ég því
þegar dyravörðurinn skellti hurðinni á hinn klæðlausa.

Bertolt Brecht
Þýð. Þortsteinn Þorsteinsson

1 ummæli:

Varríus sagði...

Gott kvæði hjá Brecht. Verst hvað leikritin eru klunnaleg blanda af lopateygjum og sjálfsögðum hlutum.