23.11.09

ANDSKOTINN!

Já, nú duga engin útlensk og slyttisleg blótsyrði lengur.

Mikið djöfull er viðbjóðslega blóðugt að horfa uppá niðurskurð hjá ríkinu, skattahækkanir og hvaðha, á meðan nokkrir útrásarfávitar fá að leika lausum hala í bönkum í ríkiseigu, afskrifa milljarðaskuldir hjá fávitum sem hafa sýnt af sér þá snilli eina í viðskiptalífinu að geta sett hvað sem er á hausinn.

Ég hef ekki skipulagt neinar mótmælaaðgerðir. Ég sniðgeng Hagabúðirnar alveg gjörsamlega ómeðvitað. Hreinlega meika ekki að versla í þeim, hvað sem það kostar að fara annað. Best líður mér í Pétursbúð, þessa dagana.

En enn eru viðskipti mín hjá hinum nýnefnda peningaþvottabanka. Ég hef ekki skipulagt aðgerðir. En einhvern næstu daga kem ég til með að yfiirgefa hann, í nokkru fússi og með þjósti. Mér er alveg sama þó Jón Ásgeir hafi riggað upp einhverjum útlenskum vinum til að fá 7 milljarða lán í sama banka til að þykjast kaupa hlut í Högum fyrir hann. Mannfýlan er gjaldþrota og þar að auki spilafíkill. Hann getur bara farið í gjaldþrotaskipti eins og allir aðrir sem yfirskuldsettu sig og fá enga sérmeðferð. Hangið svo í spilakössunum á Monaco.

Tímar "Helvítis fokkíng fokks" eru liðnir.
Ég er að sigla inn í eitthvað "Andskotans djöfulsins helvítis skítapakk"-tímabil.

Ég hef verið mjög áfram um að gefa þessari ríkisstjórn séns. En þetta fer að verða ágætt. Nú þarf Jóhanna að slá á putta og segja "svona gera menn ekki", annars er það ekki ríkisstjórnin sem stjórnar landinu heldur góðærisgosarnir og útrásarpakkið. Þar með er engin ríkisstjórn eftir í þessu landi sem ég treysti. Og þá er ekki um annað að ræða en að segja undirbúning fyrir Kanadaflutninga á milljón.

Og var ég búin að minnast á að ég þoli ekki þegar ég lendi í að vera sammála Davíð Oddssyni?
Hvað þá Hannesi Hólmsteini?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Styð klárlega þessa Kanadaflutninga....Það er ekkert orðið eftir annað en það Sigga Lára....

Elísa Berglind