15.12.09

Sjallar! Vakna!

Í pólitík er ég einhversstaðar talsvert vinstra megin við VG. En ég hef áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum. Undanfarna daga hef ég verið að lesa, hér og hvar (man ekki einusinni hvar) að stefnubreyting hafi orðið hjá sjöllum á landsfundinum síðasta, þegar skýrslu svokallaðs endurreisnarhóps hafi verið kastað fyrir róða og ákveðið að halda bara áfram, einhvernveginn. Bísness es júsjúal.

Það getur vel verið að þessi skýrsla hafi verið "vond" og illa unnin, eins og einhverjir segja en að stilla upp (meintum) stórfyrtækjabröskum og kúlulánafólki í fremstu víglínu getur bara ekki talist sérlega klókt, á þessum síðustu og verstu tímum.

Ég sé algjörum ofsjónum þessa dagana yfir stóru verslanakeðjunum og risafyrirtækjunum sem eru meira og minna í eigu þeirra sem settu þjóðina á hausinn með braski. Þeir virðast eiga allt, í gegnum endalausa vafninga og eignarhalds- eignarhalds... eitthvað. Og þeir eiga greinilega bara að fá að halda áfram að braska. Eins og vindurinn. Og fá fyrirgreiðslu frá ríkinu til að taka þátt í að stofna fleiri fyrirtækja, sbr. Bjólfurinn sem ber beina eða óbeina ábyrgð á þriðjungi allra skulda ríkisins í dag.

Ég man þegar Sjálfstæðismenn voru málsvarar smáfyrirtækja. "Lítilla" kaupmanna og útgerðarfyrirtækja sem reyndu að standa í samkeppni við stóru vondu Samvinnuhreyfinguna og útgerðarrisana. Þá sá maður fyrir sér feita og gráðuga svíðinga sem voru að reyna að fara illa með sjómenn og bændur. Núna er allt annað í gangi. Íhaldið (orð sem maður heyrir of sjaldan) gæti auðveldlega tekið sér stöðu sem vinur litla viðskiptamannsins og gegnt lykilhlutverki í því að leiðrétta samkeppnisumhverfi í íslenskum viðskiptum. Nokkuð sem liggur í eðli flokksins, grundvallarstefnu og sögu.

En það gerir hann aldrei með góðærisplebbana fremsta í flokki.

Er ekki nóg að ríkið sé að hlaða undir gosana þó sjallar geri það ekki líka? Skýtur ekki nokkuð skökku við að djöflast á Samfylkingu fyrir (meinta) hliðhylli Baugs og vera síðan með hinn tvíburaturninn undir verndarvængnum? Eru stjórnmál Íslands kannski líka komin í einkaeign Baugs og Bjólfanna og koma okkur skrílnum þess vegna ekki við?

Þetta síðastnefnda óttast ég að sé rétt, í hugum stjórnvalda og hinnar fámennu valdastéttar á Íslandi. Þess vegna spái ég róttækri, og líklega blóðugri, byltingu ekki síðar en á vordögum.

1 ummæli:

Berglind sagði...

Ég held að það sé svolítið til í þessu með stefnuna, stöðuna og fólkið.