13.2.10

Hvað skal?

Rannsóknarskip að jafna sig eftir þorrablót og íbúar neðrihæðar voru líka með djamm í gær svo öllum húsbúum yrði klárlega greiði gerður með því að skreppa með börnin burt fram að hádegi.

Auðvitað væru þau hæstánægð með að fara út á leikskólaróló og gætu sjálfsagt ljónast þar fram eftir degi. Við að éta sand og fara hundrað sinnum í rennibrautina. Hugsanlega yrðu líka nokkrir kettir eltir um allt hverfið.

En hann er rigningarlegur, Móðurskip ekki alveg að nenna að híma úti og ormarnir ekki lausir við kvef. Aukinheldur sem lengi hefur verið í umræðunni að við Freigáta förum eitthvert og reynum að finna náttljós í herbergið hennar, sem hún kvartar yfir að þurfa að sofa í.

Er hvíthyskjó að fara bara með börnin í Kringluna, á laugardagsmorgni?

---

Best að segja frá framhaldinu. Leitin að ljósinu bar okkur úr Kringlunni í IKEA, hvar við fundum það sem við leituðum að, í ýmsum útgáfum, og enduðum á ljómandi kjötbollum í mötuneytinu um hádegisbilið. Að því loknu hugsuðum við okkur til heimferðar og þóttumst vera búin að gefa þunna fólkinu í húsinu heilmikinn tíma til að jafna sig aðeins.

Skiptir þá engum togum að Allt í einu er annað eyrað á Hraðbát orðið fullt af blóði. Bara eins og í hryllingsmynd. Hitt eyrað er líka fullt af einhverju grænu ógeði. Móðurskip fékk taugadrullu og hryllingskast og óttaðist það versta. Það versta sem mér datt í hug var reyndar að rörið hefði losnað. Ég hélt ekkert að heilinn væri að leka út, eða neitt.

Við þrusuðum niður á læknavakt í Smáranum. Þar voru um það bil hundrað milljón manns að bíða. Loksins þegar við komumst að leist lækninum nú ekkert á útlitið. Hraðbátur, sem fram að því hafði verið hinn hressasti, varð alveg kolbrjálaður þegar átti að skoða í eyrun. Enda klárlega kominn aftur með eyrnabólgu. (Má geta þess að síðasta pensillínkúr sleppti á þriðjudaginn.) Læknirinn sendi okkur niður á háls- nef- og eyrnadeild á Borgarspítalanum. En þangað þurftum við að drífa okkur í hvínandi hvelli því þar þyrftum við að ná lækni sem væri allllveg að fara af vakt. Móðurskipið með taugadrulluna, Hraðbáturinn með blóðið í eyranu og Freigátan, sem þá var farin að þjást talsvert af afskiptaleysi, voru sem sagt rekin aftur út í rigninguna og laugardagsumferðina til að æða á milljón gegnum hálft höfuðborgarsvæðið. Það er talsvert margfalt kraftaverk að við komumst þangað, í tæka tíð og ósködduð. (Ja, allavega ekki skaddaðri en fyrir.)

Þar var eyrnapíslum Hraðbáts fram haldið, og gott betur, þar sem þarna voru til „betri græjur“, en það þýddi að það var hægt að soga út úr eyrunum á honum með eins konar míníryksugu. Það þótti honum síst þægilegra en píningarnar í Smáranum. Það er séns að allir séu orðnir heyrnalausir á háls- nef- og eyrnadeildinni.

En bestu fréttirnar voru nú þær að rörin voru á sínum stað og eyrnabólgan ekki meiri en svo að það á að athuga hvort eyrnasmyrsl duga, svo kannski sleppur gaurinn við pensillín, í þetta sinn.

Hraðbátur sofnaði á leiðinni heim. Og Móðurskip með honum þegar heim kom. Við sváfum úr okkur taugaáfallið í alveg tvo tíma. Síðan er ég búin að fara og synda 1 kílómetra og sjóða mig dálítið í heitasta pottinum í Vesturbæjarlauginni og er alveg að verða búin að jafna mig.

Ætla að klára það á Rósenberg á eftir á tónleiku með Band on stage.

3 ummæli:

Nonni sagði...

OMG! never a dull moment ;)

Sigga Lára sagði...

Hehe.
Nei, það gerist sjaldan.
Nema hjá Árna greyinu sem lá þunnur heima og missti af öllu saman. ;)

Berglind sagði...

Var þetta þá ekki allt Smáralind að kenna?

Ég sauð mig líka pínulítið í heita pottinum í gær (af því að vatnið í hinum náði bara upp á nöglina á stórutánni), synd að við skyldum ekki vera þarna á sama tíma. Ég hefði ekki slegið hendinni á móti sögustund.