4.2.10

Vörkát

Þegar ég fer að hlaupa í hádeginu hef ég stundum asnast til að vera í íþróttahúsinu á háannatíma. Þ.e.a.s. þegar milljón kellingar eru að koma úr sértilgerðum kven-íþróttatíma. Ég veit svo sem ekki hvers vegna þessir tímar hafa aldrei festst í hausnum á mér. Og mér hefur aldrei dottið í hug að prófa að vera með, en líklegast er það einhver hroki. Margar þessara kvenna eru nefnilega á aldri við mömmu mína eða þareldri. Þrátt fyrir að vera bara rétt núna að komast í skítsæmilegt form þá ríður aldurshrokinn í manni nú ekki alveg alltaf við einreyming.

Allavega, í gær þurfti ég að fara á námskeið strax eftir hádegi á efri hæðinni í íþróttahúsinu. Úti var heimskautakuldi svo ég nennti alls ekki að hlaupa. Svo þá lá allt of beint við að prófa að fara í "kellingaleikfimi".

Ég var nú eiginlega samt fyrirfram komin með móral. Hélt ég myndi þá sennilega hreyfa mig allt of lítið þann daginn. Niðurstaðan varð... önnur.

Kellingaleikfimin, með helmingi hópsins 50+, var sko ekkert minna en brjálað eróbikk með lóðum, teygjum og sveigjum, hoppum og skoppum og magaæfingum eins og enginn væri morgundagurinn. Ég hef líklega aldrei púlað jafnmikið á 45 mínútum í þessum skóla. Og er í dag með svaðalegar harðsperrur á öllum réttu stöðunum. Þ.e.a.s. hvaðan næstu 3 - 5 kíló skulu hverfa.

Þessar kellur eru sko hraustari en maður heldur.

Engin ummæli: