2.3.10

Er hrunið kannski eftir?

Ég veit ekki hvað borgar sig að pæla mikið í ESB núna. Heldur ekki hvað þessi Icesave-samningur á eftir að gera fyrir neinn. Heldur ekki hversu lengi þeir sem nú maka krókinn halda þeim peningum. Eða hversu lengi hinir endurreistu íslensku bankar lafa.

Fréttir af efnahagsástandi í útlöndum eru nefnilega svolítið pre-hrun. Menn tala um samdrátt. Það eru samt litlar fréttir. Það er enn að hægja á öllum "hjólum efnahagslífsins" allsstaðar. Sum ríki eru orðin mjög skuldsett vegna ofneyslu á öllum lífsins gæðum. Og maður hefur svolítið á tilfinningunni að á bak við tjöldin séu menn að djöflast við að búa til Icesave-ískar reddingar á málum.

Kannski var íslenska hrunið bara formáli. Allt efnahagskerfi vesturheims byggir á mjög fúnum stoðum og reiknikúnstum sem eiga sér hvergi fótfestu í neinum raunveruleika. Dæmum sem ganga ekki upp. Ekki náttúruvísindum heldur félagsvísindum. Sem eru ágæt fyrir sinn hatt, en mjög ung og óreynd sem fræðigrein. Lögmál efnahagskerfanna og peningamálastefna, eins og við þekkjum þau, byggja ekki á sérlega langri reynslu. 100 til 200 ár, eða svo? Þess vegna hljóma fræðikenningar hagfræðinga og viðskiptafræðinga svona misvísandi. Það eru allir að einhverju leyti að giska.

Ég held það geti verið að vesturheimska hrunið sé eftir. Í Evrópu og Norður Ameríku er yfirbyggingin löngu búin að yfirkeyra grunnstoðirnar. Japan og Kína hafa ekki farið varhluta af þenslunni heldur. Og loftbólur hafa tilhneigingu til að springa.

Líkindin við ástandið á fyrstu árum eftir fyrri heimsstyrjöld eru mjög sláandi, hvað sem maður skoðar í sögunni. Og hvað gerðist 1929?

Ég held það geti verið að bráðum verði efnahagslega öruggast að búa í Afríku.

4 ummæli:

Berglind sagði...

ESB? Tjah, það hefði a.m.k. verið gaman að sjá þig í kúrsinum Evrópuþýðingar í dag. Kemurðu kannski eftir viku ...? Stofa 423 í Árnagarði!

Sigga Lára sagði...

Ætli það?
Ligg yfir styrkumsóknum þessa dagana og er svo í gagnaöflun fyrir stóra verkefnið.

Öngvir kúrsar á þessari önn.

Berglind sagði...

Eru þessar styrkumsóknir nokkuð skapandi? En listrænar ...? Tíhí.

Sigga Lára sagði...

Afar óskapandi. ;)