7.7.10

Eða... næstum öll

En sagan var víst ekki búin.

Á mánudagsmorgun ætlaði ég nú aldeilis að hrista af mér slenið, eftir svona frekar slappa helgi, og fara og hlaupa óværuna úr mér. Gerði mjög heiðarlega tilraun. Varð reyndar fljótlega asnaleg af hlaupunum, fann eitthvað ekki taktinn og varð andstutt og... já, bara asnaleg. Hætti að hlaupa en labbaði slatta. Kom heim... var áfram skrítin. Fór í vinnuna, en lét Rannsókanrskip keyra mig þangað. Sem er ekki líkt mér. Var ekki mjög lengi í vinnunni. Enda enn asnaleg. Lét Rannsóknarskip sækja mig aftur. Var enn með andþynglsi og einhverja vitleysu þegar heim var komið svo það endaði með því að ég hringdi uppá Hjartagátt. Og fór þangað.

Þar var tekið hjartalínurit, settur hjartamónitor og tekið blóð til að rannsaka einhver hjartaensím. Í byrjun sáust aukaslög, en þau löguðust þegar ég var búin að liggja slatta. Enda leið mér þá betur. Ensímin reyndust alveg eðlileg.

Læknir kom og spjallaði viðmig (honum þótti meðal annars fyndið að ég skyldi vera að lesa Önnu í Grænuhlíð) og sagði mér að allt væri eðlilegt, þannig, þessi aukaslög væru ekki hættuleg, en þau ákváðu að taka sólarhringsmælingu á hjartslættinum áður en ég færi í fríið, samt. Og svo fékk ég að fara heim.

Lá alveg eins og klessa í rúminu í allan gærdag, og er mun hressari eftir. Finn samt aðeins fyrir asnalegheitum. Og í dag var hengd á mig græja sem á að taka upp hjartsláttinn þar til klukkan 11 í fyrramálið. Svo nú reyni ég að framkalla einkennin sem ég hef fundið fyrir.

Í fyrramálið ætla ég út að hlaupa og reyna að framkalla asnalegheit, og svo ætla ég út í skóla og fá mér sígó og kjaftatörn við manninn sem ég var að tala við þegar leið yfir mig.

Það ætti að geraða.

Annars eru börnin komin í leikskólafrí og ég búin að finna Önnu í Grænuhlíð eins og hún leggur sig, á Internetinu. Miklu fleiri bækur heldur en hafa verið þýddar á íslensku.
Og fjölskyldan heldur í árlega sumarútlegð á laugardaginn. Sem er alveg mánuði síðar en vant er, aðallega vegna gegnumtekninga á heimilinu og unglingavinnu unglingsins.

Aftur sný ég ekki í borg höfuðsins nema rétt til að fara eitthvert annað fyrr en að aflokinni leiklistarhátíð NEATA á Akureyri, 15. ágúst.
Og séu menn forvitnir um þá hátíð er ekki úr vegi að fjárfesta í eintaki af nýútkomna menningartímaritinu Spássíunni, sem inniheldur m.a. dagskrá og sögulega úttekt ásamt greinarkorni eftir undirritaða. Já, ég skrifaði fleira í það blað en greinina um The Wire, sem hefur þó orðið umræddari. Spássían er annars hið efnilegasta rit og ætti að fást í næstu bókabúð, hvar sem menn eru staddir.

Verð í netbandi og ætla að reyna að vera duglegri að skrifa það markverðasta. Og myndir af blessuðum börnunum þurfa líka að fara að birtast.

1 ummæli:

Ásta sagði...

\o/\o/\o/\o/\o/