13.7.10

Óstjórnlega gaman í sveitinni


Norðlenska blíðan hefur nú reyndar ekki látið sjá sig. Nema svona stund og stund í mesta lagi og í dag er hálfgerður kuldi, bara. En hér skemmta menn sér engu að síður. Leika við þrjá kettlinga, gefa heimalningum, djöflast í heyi og sulla í pollum. Þarf ekki meira til að dagarnir séu fullir af ævintýrum.

Í gær lögðum við líka land undir hjól og fórum til Húsavíkur. Þar fórum við í sund, fengum okkur kaffi á Gamla Bauk og eyddum formúgu fjár í sundföt og allskonar. (Gamla settið skildi sundfötin sín eftir í Reykjavíkinni. Svona, bara.) Já, og svo hittum við einn Hálfvita og Hálfvitafrú (Odd Bjarna og Margréti) sem Freigátunni fannst nú hápunktur ferðarinnar. Svo er hún farin að þrábiðja um "grænan" hálfvitabol. Svo líklega verður að finna leið til að útvega svoleiðis, fljótlega. Já, svo vill hún hitta fleiri Ljóta.

Við hefðum kannski bara átt að fara með hana á Bibbasafnið?

Móðurskipinu heilsast sæmilega, en er þó gjarnan komin með einhver hjartsláttarglöp síðdegis. En það lagast nú vonandi bara með þjálfuninni. Núna geng ég í kringum slægjuna hjá Sverri mági mínum kvölds og morgna. Og hún smá-stækkar. Svo labbitúrinn verður lengri og lengri. Mér finnst hreyfingin eiginlega hafa betri áhrif en hvíld og hang. Þó það sé vissulega iðkað líka. Annars er ég ferlega ofnæmuð hérna og er að hugsa um að fara í bæinn og versla mér pillur við því. Ég er með ofnæmi fyrir einhverju sem vex mikið hér fyrir norðan, ekki eins mikið fyrir austan, heilmikið í Norður Noregi og Írlandi, næstum aldrei í Reykjavík og aldrei í Montpellier eða nágreinni. Og þá er bara að leggjast í náttúruvistfræðina og finna útúr þessu.

Líklega förum við síðan í austrið á föstudaginn. Allavega ég og krakkarnir, sjáum til hvort Rannsóknarskip kemur með eða verður aðeins eftir við heyskap.

(Og þar sem nenna vor hefir ekki staðið ógurlega mikið til myndatakna er myndin sem fylgir, reyndar tekin hér í Eyjafirðinum, tveggja ára gömul.)
(Og hún er svona hallandi af því að við erum í Brekku.)

Engin ummæli: