7.9.10

Landsframleiðsla

Ég á heimili. Eins og flestir landsmenn. Á því er jafnan FULLT af drasli. Allskonar krappi sem enginn notar nokkurntíma og maður veit varla almennilega hvernig komst þangað. Það er alveg sama hvað maður reynir að vera duglegur að henda. Það er eins og þetta streymi inn meðan maður er að heiman.

Allt er þetta væntanlega „framleitt“ einhversstaðar. Hluti af „landsframleiðslu“ einhvers.

Nú ku vera samdráttur í „landsframleiðslu“ Íslands. Ómægoood! Förum á taugum!

Mér finnst skipta máli í HVERJU er samdráttur. Erum við að draga saman í framleiðslu á einhverju sem einhver þarf að nota? Saknar einhver þessara vara sem við erum ekki að framleiða? Hættum við kannski að framleiða það sem seldist ekki og átti þar af leiðandi enga eftirspurn? Fóru menn kannski bara að gera eitthvað dýrmætara við tíma sinn?
Sinna einhverju fágætara og innihaldsríkara en „framleiðslu“.

Þegar Marx og hinir kommúnistarnir settu fram kenningar sínar sem allar snerust um framleiðslu og framleiðslutæki held ég að þá hafi ekki órað fyrir hvað við ættum eftir að eyða mikilli orku í að framleiða rusl og drasl sem er engum til gagns. Umhverfismengandi andskoti sem skapar illa borguð og ömurleg verksmiðjustörf sem drepur í fólki heilana. Og í þeim löndum þar sem krappframleiðslan er mest virðist einmitt ekki alltaf vera til matur handa fólki. Því síður húsaskjól eða föt. Menn drepast í hrönnum af fyrirbyggjanlegum sjúkdómum, vosbúð, stríðum (sem flest snúast um drasl, peninga til að kaupa drasl eða landsvæði til að framleyða drasl) og vitleysu. En enginn má vera að því að gera neitt í því. Það þarf að framleiða krapp til að fylla heimili Vesturlandabúa af einhverju sem þeir nota kannski aldrei, en gefur þeim samt blekkingu velmegunar.

Sælan að þurfa að taka til...

Og „landsframleiðsla“ dregst saman.

Só?

4 ummæli:

Ásta sagði...

Þetta er kapphlaup - sá sem getur framleidd draslið og selt það á undan öðrum vinnur. Það má líka leggja líkur að því að einhvers staðar er einhver að nota þessa drasl og finnst það nauðsynlegt.

Minni landsframleiðsla -> minni útflutningur -> meiri innflutningur -> hærra vöruverð -> meiri verðbólga -> minni kaupmáttur -> færri fyrirtæki -> færri störf -> lægri laun ... og svona heldur það áfram.

Hörður sagði...

Eins manns drasl er annars manns gull. Og öfugt.
Vissulega eru mörg dæmi um slæmar aðstæður verkafólks í þriðja heiminum, á stundum glæpsamlegar.
Hinsvegar er útflutningur á "drasli" fljótlegasta leið láglaunasvæða til að ná upp lífskjörum. Athugið líka að í kjölfar falls krónunnar erum við Íslendingar komin óþægilega nærri þessum láglaunasvæðum sem framleiða "drasl" til úrflutnings.

Sigga Lára sagði...

Já, svona er þetta.

En er neysluvítahringurinn virkilega eina leiðin fyrir mannlífið að vera? Þarf endilega að fjöldaframleiða allt krappið í grilljón eintökum af því að einhversstaðar eru einhverjir hundrað sem nota það? Er ekki kominn tími á að endurhugsa fjöldaframleiðsluna?

Þetta er eins og með kirkjuna á miðöldum í Evrópu sem alls ekki var hægt að hugsa útfyrir.

Eigum við að reyna að þróa þetta mannkyn eitthvað áfram... eða bara að stoppa hér? Í draslinu?

Er fljótlegasta leiðin örugglega best? Skammtímalausnir sem byggjast á fúnum forsendum? Eigum við ekki að vera búin að læra eitthvað um að svoleiðis endist ekki neitt? Eigum við að stökkva á næstu skammtímalausn og bíða svo bara eftir næsta hruni?

Komm on pípúl.
Hagkerfin byggja ekki á neinum náttúruvísindum. Þetta er man-made kerfi. Og ef við ætlum ekkert að byrja að véfengja forsendur þess lagast hinir hörmulegu gallar þess aldrei.

Spunkhildur sagði...

Sammála Siggalára. Vel að orði komist.

Svona til að byrja með og áður en við förum að huga að fjarlægri framtíð verðum við að reyna að sameinast sem ein tegund hér á jörðinni.

Ef það kostar 1 að brauðfæða heiminn eyða vesturlandabúar 5 í auglýsingar. Og það er viðbjóðslegt.