9.11.10

Gnarrenburgh!

Jón Gnarr talar ekki pólitík. Hann er algjörlega eintyngdur á mannamál. Hann er ekkert góður í að segja setningar sem hljóma eins og þær séu um eitthvað en þýða ekki neitt. Og hann segir aldrei "auðvitað". Hann sendir aldrei samflokksmenn sína til að svara óvinsælum spurningum. Hann ætlar ekki í endurkjör, heldur aðeins að sitja í fjögur ár í svörtustu kreppu þar sem hann þarf eingöngu að taka óvinsælar ákvarðanir.
Hverjum dettur í hug að gera sjálfum sér annað eins og þetta?

Fáum. Kannski engum öðrum.

Og þetta eru mjög merkileg tíðindi fyrir stjórnmál á Íslandi. Kannski víðar.

Margir eru mjög hræddir við þennan borgarstjóra. Ég held að það sé þó hræðslan við hið óþekkta frekar en að þeir telji fyrri borgarstjóra og pólitíkusa hafi verið svo ofboðslega starfi sínu vaxnir. Stjórnmálamaður sem aldrei viðurkennir mistök er annaðhvort alveg nautheimskur eða hraðlyginn. Athugist að þjóðin er á hausnum og enn hefur enginn viðurkennt hvorki mistök né brotavilja.

„Borgarmálin eru ekkert djók“ segja margir, með hræðslu-við-breytingar-glampa í augum.
Halda menn í alvöru að allir í Ráðhúsinu séu bara að djóka núna? Sitji bara og horfi á Næturvaktina og segi brandara? Ég sé ekki betur en að verið sé að skoða alls konar sparnaðarleiðir og ég veit ekki hvað. Og við höfum borgarstjóra sem hefur komið auga á það að borgarstjóra er ætlað að mækrómanagera allt of miklu innan borgarinnar. Svo kannski er ekki nema von að enginn þeirra hafi sinnt sínu starfi af viti. Það er hins vegar ekki í eðli pólitíkusa að skerða völd sín.

Gaurinn sem gerir Zeitgeist-myndirnar sagði þrennt þurfa að hverfa til að mannlegt samfélag yrði af einhverju viti. Pólitík, trúarbrögð og peningakerfið. Hann taldi erfiðast að losna við peningakerfið. Ég held hins vegar að pólitíkin hverfi aldrei alveg. Almenningur sækir í öryggi, einhvers konar kerfi og/eða reglur sem, í nútímanum, teljum við að einhvers konar yfirvald þurfi að skipuleggja.

Að sækjast eftir völdum í samfélaginu af einhverju öðru en valdagirnd og sjálfum sér til dýrðar er hins vegar fordæmalaust.

Jón Gnarr kemur alltaf út eins og hálfviti. Auðmjúkur hálfviti, þó. Breyskur og mannlegur gaur sem hefur aldrei keppt í Morfís.

Þegar hann var búinn að líkja sjálfum sér við Predator í íslenskri pólitík (líking sem ég held að fleiri skilji heldur en nokkuð sem nokkur annar borgarstjóri hefur sagt) sagði spyrill: Þetta er bara bull sem þú ert að segja!

What?

Menn mættu nú alveg skella þessu framan í Ráðherra/þingmenn/pólitíkusa þegar þeir eru búnir að segja setningar á borð við:
„Það er auðvitað alveg ljóst að það þarf að fara ofan í saumana á þessari ákvörðun og skoða allar hliðar málsins áður en ákvörðun er tekin um næstu skref í stöðunni.“

Heyrðu vinur, þetta er bara bull sem þú ert að segja!

Hvað ætli fyrrverandi borgarstjóri Davíð Oddsson hefði verið lengi að sjá til þess að sá spyrill starfaði aldrei framar á fjölmiðli?

Já, ég er víst að slóra. Og þó ekki... Besti flokkurinn er að taka sér stærra og stærra pláss í doktorsritgerðinni minni. Enda hvalreki þegar maður ætlar að rannsaka pólitíkst leikhús á ákveðinu tímabili að þá taki leikhúsið sig til og brjótist inn í pólitíkina.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert svo oft spott on Sigga Lára, og algjörlega núna! Viðtalið var ótrúlega óþægilegt en hann er einlægur borgarstjórinn okkar, vanmetinn og sjaldséður kostur í pólitík.
Alltaf gaman að lesa pælingarnar þínar :)
kveðja
Hildur

Varríus sagði...

Hef ekki séð Predator.

Hef horft á slatta af Wire og þótt það talsvert slakara en Shakespeare, Brecth og Shövall (afsakið) og Walhöö. En klárlega að fást við sömu viðfangsefni, og nógu vel til að vera með í setningunni.

Er samt bara talsvert að fylgjast með, og er dálítið að verða pirraður á attitjúdinu "þú ert ekki að skilja þessa byltingu", sem hljómar eins og eitt af betri Fóstbræðrasketsunum þar sem Jón fór á kostum.

Hin gnarríska nálgun væri fín ef hún fælist ekki í því að eftirláta arfleifð Sjálfstæðisflokksins (embættismannakerfinu) völdin. Og/eða samstarfsflokknum.

Valdið verður einhversstaðar - ég myndi kjósa að það væri þar sem ég kaus að hafa það.