19.4.10

Skýrslan og svona...

Skýrslan kom í hús hjá mér í dag. Ég er eitthvað ekki að nenna að byrja á henni. Mér heyrist nefnilega hinir nýendureinkavæddu bankar standa á jafnvel lélegri brauðfótum en þeir gömlu, auk þess sem raddir heyrast um yfirvofandi gjaldþrot Íbúðalánasjóðs, Sparisjóðanna, Lífeyrissjóðanna ... og bara þess sem eftir er? Enda eru þetta mest sömu asnarnir sem eru enn að reka þetta. Og þeir ætla sér ekkert annað en fyrir tveimur árum; nefnilega hirða allt fémætt innanúr og skilja skurnina eftir, þangað til hún hrynur. Á eftir hinu.

Jæjajæja. Þá verður kannski hægt að gera aðra byltingu. Og stofna Zeitgeist-þjóðfélagið. Enda ekki um annað að ræða en að segja formlega skilið við peningakerfið á því stigi málsins.
Og það verður nú fínt.

Eiginmaðurinn sveiflast á milli vonar og ótta. Átti að vera að fara á ráðstefnu í Danmörku á morgun en flugið er allt í öskunni. Sjáum til. Verstur fjandinn að ef hann kemst ekki þá verð ég illa bitin í samviskunni í þau þrjú skipti sem ég hugsa mér að vera í burtu í sumar!

Úr góðufréttahorninu er það helst að frétta að Hraðbátur hefur formlega fengið inni á leikskólanum hinumegin við götuna og fær að byrja þar um miðjan maí. Ekki nóg með að þá getum við sparað okkur akstur í vinnuna, heldur lækkar dagvistunarkostnaður heimilisins um einhvern tuttuguþúsund kall á mánuði.
Og munar um minna á þessu heimili einna grunnskólakennaralauna.

Annars er ferlega margt að klárast, bara. Kennsla búin í Háskólanum. Voða mikil heimsendatilfinning í loftinu.

Kannski bara askan og eldurinn.

Engin ummæli: