26.1.11

Hart (í) bak!

Smá baksaga.

Þannig er að árið 2004 lyfti ég málningarfötu. Ég hélt hún væri tóm, en hún reyndist troðfull af málningu. Og ég meiddi mig í bakinu. Leið og beið og ég fann fyrir þessu svona tvisvar á ári. Þangað til vorið 2009, þá var ég orðin alveg að steindrepast. Eitthvað gat ég látið þetta skána með hlaupum og ólátum og svona, en aldrei almennilega.

Um tveimur árum síðar drulluhakkaðist ég loksins til læknis. Sá gaf mér bleðil til að fara með til sjúkraþjálfara. Og þangað fór ég í morgun. Algjörlega viðbúin að fá slæmar fréttir um varanleg örkuml, aðgerðir og endalausan kostnað í sjúkraþjálfun ævilangt eða lengur.

Þegar ég hafði stamað upp sorgarsögunni sagði fjallmyndarlegi sjúkraþjálfinn: „Já. Þú hefur tognað í bakinu þarna um árið og þú viðheldur bólgunni með því hvernig þú situr.“
Ég þarf að mæta til hans þrisvar eða fjórum sinnum, sitja almennilega, og málið er dautt.

Sem sagt, þunglyndi, kvíði og pirringur undanfarinna mánaða reyndust vera þreyta og ég lagaði það sjálf með því að hvíla mig nóg og bakið laga ég með raðskatinu á mér. Raðaði vinnustólnum þannig að ég sitji í honum eins og manneskja og get byrjað að láta mig hlakka til Í NÆSTU VIKU þegar ég verð ekki lengur eins og gamalmenni í stoðkerfinu.

Kannski maður hefði nú átt að öjlast til að láta athuga þetta eitthvað, svona tveimur árum fyrr.

Horfði annars tvisvar á Zeitgeist – Moving Forward í gær. Engar nýjar upplýsingar þar, svo sem.
Í því samhengi eru spennandi hlutir að gerast í Túnis og Egyptalandi. Þjóðirnar þar virðast eitthvað vera að hrista af sér gullrassana. Og Stjórnlagaþingið? Kom ekki á óvart að það yrði stöðvað með öllum tiltækum. Það búa tvær þjóðir í þessu landi. Tvö mannkyn í heiminum, reyndar. Það hriktir í stoðum gamla peningavaldakerfisins úti um allt. En það á ekkert eftir að hverfa hljóðalaust inn í sólarlagið.

Þetta er rétt að byrja.
Og margir verða dauðir og heilmikið ónýtt áður en yfir lýkur. Og ekkert víst að yfir ljúki fyrr en eftir hundrað ár, eða svo.
En heimsveldi hafa hingað til endað með að hrynja. Og heimsveldi peninga(manna)nna virðist ætla sömu leið.

Ég ætla nú bara að láta mér batna í bakinu og halda áfram að rannsaka leikhús.

1 ummæli:

BerglindS sagði...

,,... ævilangt eða lengur" - tíhí. Að öðru leyti samhryggist ég þér náttúrlega í bakverkjum þínum.

Á eftir að sjá Helgi dauðans en gratúlera samt með frumsýninguna. Á bókað 10. febrúar.

Svo sá ég að þú birtist í Fréttablaðinu með gamanmál út af leikritinu.

Held að ég sé búin að segja allt núna, hmm. Nei, svona í tilefni dagsins sveifla ég því inn í kommentið að annað hvort Bjarni Ben. eða Indland á 62 ára afmæli í dag.