7.2.11

Á vergang!

Vegna allskonar held ég að við séum eiginlega alveg búin að ákveða að skella íbúðinni á sölu og vera á vergangi með familíuna síðustu tvö árin áður en við hyggjum á hina löngu ofskipulögðu Námsdvöl Erlendis. Það þýðir að við ætlum að taka bjartsýniskastið og athuga hvort við getum ekki fengið einhver eðalfín híbýli, helst í gamla vesturbænum, helst stærri en við vorum í, helst á undir tvöhundruðþúsundkall, á mánuði, leigð til tveggja ára, eða svo.

Ekki veit ég nú svo ofboðslega gjörla hvort við nennum alveg "á fullt" í þessar ráðagerðir fyrr en eftir Egilstaði-Edinborg, en rétt er að flagga þessu sem mest og víðast. Við reiknum með einhverskonar vistaskiptum í sumar, sirkabát. Og leit að leiguhúsnæði á þessu svæði reynist tilefni til bjartsýnisverðlauna, þá skoðum við auðvitað önnur hverfi og svona. (Svo var ég rétt í þessu að muna að á stúdentagörðum er ein 4 herbergja íbúð... best að spurja Gerði hvernig var að búa í henni...)

Semsagt, allir mega hugsa til okkar ef þeir frétta af einhverju...

Svona annað en þetta er tíðindalítið, nema Freigátan telur nú dagana þangað til hún kemst til hinna langþráðu Egilsstaða (og Míu hunds) (þeir eru fimm) og við Rannsóknarskip hömumst við að ofskipuleggja hvert fótmál Edinborgarferðar. Hótelið okkar virðist vera í leikhúskraðakinu miðju, sem er afar heppilegt, svo þá er bara að komast eftir því hvar helstu bókabúðir eru staðsettar. (Og hvort þær eru opnar á laugardögum eða hvort við þurfum að taka sprettinn um leið og við lendum á föstudagseftirmiðdegi.)

Jæja. Best að skrifa doktorsritgerð.

Engin ummæli: