24.3.11

Að selja gólf

Íbúðin sem við erum nú að fara að flytja í datt í hausinn á okkur um kvöldmatarleytið fyrir svosem hálfum mánuði síðan. Rétt í því sem ég var að skella grjónagrautnum á borðið hringdi systir mín og hafði séð hana auglýsta á fésinu, þannig að ég hékk í símanum, fór á feisbúkk, svo aftur í símann... og á allt þetta gerðist á kvöldmatar- og háttatíma yngri kynslóðarinnar.

Olli það ýmsum óróleika.

Til dæmis skrifaði Hraðbáturinn með grænum tússlit á gólfið. Pabbi hans þreif það upp um leið og upp komst og sagði: „Þetta má alls ekki! Ég er búinn að selja þetta gólf!“

Þegar átti síðan að fara að hátta var sá stutti allur grænn um munninn. „Hann sleikjaði gólfið!“ sagði systir hans. Þá hafði hann skrifað meira á gólfið, en brugðið á það ráð að sleikja það upp, þar sem gólfið væri, jú, orðið annarra eign.

Í morgun var ég heima með veika Freigátu. Hún er orðin ansi flutningaspennt og vill helst pakka niður öllu dótinu sínu. Sem ég er alltaf að reyna að útskýra fyrir henni að borgi sig ekki að gera strax, þar sem þau þurfi að leika sér að því í þessa níu daga sem eru fram að flutningum. (Auk þess sem það er nú mest í kössum, alla jafna... tja, þegar er nýbúið að taka til.)

Þegar ég var að gefa henni lýsi í hádeginu sullaði ég á gólfið. Þá kvein í henni: „Mamma! Þú ert búin að selja þetta gólf!“

Í fyrramálið förum við og göngum endanlega frá sölunni á gólfinu. Þá eigum við ekkert gólf sem bankinn getur kippt undan okkur, lengur.

Vonandi getum við notið þess í einhver ár að reyna að skemma ekki gólfið hans Ella P.

Engin ummæli: