6.5.11

Artífartbörnin

Smábátur syngur og dansar í Hörpunni á barnamenningarhátíð þann 15. maí, næstkomandi. Það er daginn eftir Júróvísjón. Þá verður flutt þar einhvers konar bræðingur úr söngleiknum Hárlakki sem framinn var í Hagaskóla fyrr í vor, við ógurlegan fögnuð. Hann er einnig að bíða eftir að fá að heyra hvort hann mun leika í kvikmynd í sumar. Nokkuð stórt, skilst mér.

Sá elsti er sumsé bara búinn að meikaða. Þarf ekki að orðlengja það. (Enda urðum við dáldið stolt þegar við komum einhverju sinni á sýningu í Vesturbæjarskóla, þegar hann var þar, þá um 10 ára eða svo, og sáum að hann hafði skrifað einhversstaðar að hann ætlaði að verða Hugleikari þegar hann yrði stór. Stolt stund. Enda lék hann sinn fyrsta einleik hjá því leikfélagi skömmu síðar.)

Þau yngri hafa líka verið að sýna efnilega takta í einhvers konar listhneigð.

Við Freigátan vorum að ræða um sumarið. Hún sagði: „Þá ætla ég bara að láta mig dreyma gula liti því sumarið er allt í gulu. Núna dreymir mig bara hvítt því það er vindurinn.“
Eh... ókei. Efnileg í artífartinu.

Bróðir hennar, Hraðbátturinn, átti líka merkilega innsetningu um daginn. Systir hans var að horfa á einhverja Barbímynd, sem hann hafði nú takmarkaðan áhuga á, svo hann kom fram þar sem ég var að vesenast. Þar setti hann tóma óhreinatauskörfu á hvolf. Ofan á hana setti hann lítinn Ikea stólkoll. Þar ofan á setti hann lokið af óhreinatauskútnum. Þar ofan á raðaði hann ýmsu smálegu, m.a. naglaklippum og tannstönglum. Svo fór hann á bak við þetta alltsaman og sagði, með bjagaðri röddu: „Einu sinni var kall. Hann var inni í húsinu sínu og borðaði svo mikið að hann varð allt of stór.“ Svo kom hann fram fyrir og sagði (með eðlilegri rödd) „Þetta var leikrit.“

Ef fólki finnst við hjónin artífarta yfir okkur? Bíðiði bara!
Yngri börnin okkar eiga eftir að verða einhverjir algjörlega óskiljanlegir skúlptúra-hljóðmyndar-innsetningalistamenn!

2 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Hahaha þau eru efnileg :) Ég var einmitt að horfa á dóttur mína í sýningu hjá Leynileikhúsinu í gærkvöldi og hún er búin að heimta að fá að fara næst þegar verða áheyrnarprufur fyrir börn í atvinnuleikhúsunum, "það er sko aðal draumurinn minn mamma!".

Sigga Lára sagði...

Hihi. Já, þetta byrjar snemma.

Svo vorum við að fá bréf um að þau eru kominn inn á leikskólann Grænatún frá haustinu. Og þar er miki áhersla lögð á skapandi starf...

Gleymdi líka að segja frá því að fyrsta daginn sem kom almennilegt veður og þau gátu eitthvað leikið sér úti skreyttu þau limgerðið með öllu rusli sem þau fundu.

Ég veit ekki hvar þetta endar, eiginlega.