6.8.11

Dagur 1. Flugþreyta dauðans?

Ég hef ekki hugmynd um hvað ég vakti lengi í gær/fyrradag. Ferðin Reykjavík-Helsinki-Istanbul-Osaka gekk að óskum. Svona fyrir utan það að þegar hingað var komið tókst okkur að fara öfugu megin út úr neðanjarðarlestarstöðinni og villast í klukkutíma. Ja, eins og menn gera... Ég var að ferðast með tveimur vinum mínum og írönsk kona sem við þekkjum fann okkur að lokum og gat lóðsað okkur á hótelið. Þá var búið að loka öllum veitingastöðum (í Japan ku það gerast um áttaleytið) svo við fengum okkur bara eitthvað mjög „dodgy“ japanskt á brautarstöðinni áður en við fórum á hótelið og í gríðarlega langþráða sturtu. Við létum þó ekki deigan síga alveg strax, fórum aftur út og tókst með harðfylgi að finna japanskan bar í nágrenninu þar sem við fengum okkur smá bjór og sake og spjall fyrir mjög langþráðan svefn.

Að ég hélt.

Ég hunskaði mér nú ekki í bælið fyrr en klukkan eitthvað hálftvö að staðartíma og bjóst við að sofa eins og grjót, að minnsta kosti til morguns. En, nei. Mín vaknaði klukkan hálfsex. Alveg glað. Enda sé ég núna (þegar ég gefst endanlega upp og sest við tölvuna klukkan hálf átta) að klukkan er hálfellefu að kvöldi á Íslandi. Líklega er sú klukka bara enn í gangi.

Japanska hótelherbergið er ógurlega lítið og sætt. Klósettið er gríðarlega tæknilegt, með allskonar tökkum. Og svo er voða mikið af allskonar dóti hérna. Meira að segja tæki og tól til teframleiðslu.

Ég ætla að hitta fólkið mitt núna klukkan 9 í morgunmat og síðan ætlum við að reyna að finna út úr hvernig við komumst í háskólann þar sem ráðstefnan er. (Ákváðum að við myndum ekki einu sinni reyna að ná "skutlunni" sem færi þangað klukkan 8. Yrðum örugglega ekki vöknuð. Hahaha) Þar reikna ég með að við nálgumst ráðstefnugögnin okkar og ég ætla að sitja eitthvað á fundum með vinnuhópi um pólitískar sýningar.

Annars verður verkefni dagsins að finna millistykki sem lætur evrópskar rafmagnsklær passa í japanskar innstungur, sem eru eins og bandarískar.

Svo er leiksýning í kvöld. Sem við förum á beint frá skólanum. Ég held ég nenni ekki að dröslast með hálfbatteríislausa tölvuna í dag þannig að ég verð ekkert aftur í "sambandi" fyrr en einhvern tíma seint í kvöld... sem er líklega bara á morgun, að íslenskum tíma.

Gsm síminn minn virkar ekki hérna, en ég leigði mér annan, og við öll hérna, svo við gætum verið í sambandi ef við týnumst. Sem er alveg líklegt.

Jæja, japanskt bað!

Engin ummæli: