30.8.11

Um heiminn

„Þetta er dagur til að brjóta upp rútínuna og forðast ábyrgð (slíkt pirrar þig).“ segir í stjörnuspánni minni í dag. Kannski var ekki góð hugmynd að ákveða að hleypa Rannsóknarskipi í golf seinnipartinn? Annars ætla ég að brjóta þvílíkt upp rútínuna og prófa að djúpsteikja skötusel í kvöldmatinn. Að japönskum Tempura-hætti. Gæti virkað...

Svo er ég að lesa flóknara efni en ég hef gert lengi. Það er alveg gaman. En gengur auðvitað brjálað hægt. Það vantar íslenskt orð yfir "challenge." Mér finnst hvorki áskorun eða ögrun ná því alveg; en það er þetta með að gera eitthvað sem er eiginlega erfiðara en maður getur. Ég held að mörgum mannskepnum finnist það spennandi. Að glíma við eitthvað sem er næstum ekki hægt. Komst að þessu þegar ég var að horfa á The Devil Wears Prada á leiðinni frá Japan. Og fór að pæla í þessu með New York. Þetta er að verða einhvers konar sammannlegur draumur hins vestræna heims. "If I can make it there I'll make it everywhere," söng Frank Sinatra og það er eins og þetta hafi orðið að möntru. Ef maður vill sigra heiminn fer maður til New York.

Þá er spurningin hversu mikið þessi söngur hans Sinatra hafði að segja í því að gera New York að þessum "challenging" stað. Er betra að búa þar en annarsstaðar? Ég hef aldrei komið þangað en skilst að þar sé skítkalt á vetrum, heitt eins og í helvíti á sumrum, allt of margt fólk og stórhættulegt sumsstaðar. En hvað veit ég? Samkvæmt því sem ég hef upplifað með eigin augum, í gegnum sjónvarpið, leysast allir glæpir þar meira og minna vandræðalaust og allir eru alltaf á kaffihúsum eða í "lunch" og eru fyndnir. Enginn vinnur nokkurn tíma í vinnunni og allir eru fyndnir þar líka. Já, svo eru eiginlega alltaf einhver rómantísk intríg.

Og hér í vestuheimskunni ku vera best að búa. Margt fólk frá fyrrverandi Austur-Evrópu og öðrum heimshlutum er til í að selja líkama og sál til að komast hingað. Svo lítur maður í kringum sig, horfir á stressið, skuldirnar, offituna og ofneysluna á öllum sviðum og hugsar:
„Í alvöru?“

Mig er farið að langa til að læra arabísku. Og prófa að búa í Mið-Austurlöndum. Eða Suður-Ameríku. Eða í Afríku. Eða einhversstaðar utan hins vel-auglýsta vesturheims. Einfaldlega til að athuga eitt: Er í raun og veru best að búa í vesturheimi, eða er þetta bara gott PR?

Engin ummæli: