16.9.11

Áhugaverðir tímar


Megir þú eiga áhugaverða ævi segir einhver útlensk bölbæn. Ég held það sé vegna þess að þegar tímarnir verða áhugaverðir má maður hvorki vera að því að pissa, kúka, þrífa sig eða sofa. Mér líður dáldið þannig. Þarf að stelast heim í dag áður en ég sæki krakkana til að komast í sturtu og setja í vél.

Held ég sé líka búin að komast að því hvers vegna ég var með kinnholusýkingar í allan fyrravetur. Loftræstidæmið hérna í miðjum glerkastalanum er ógeð. Nú er ég með hverfandi kvef, en eftir klukkutíma hérna inni er ég komin með stíflað nef og hausverk. Svo fór ég að horfa upp í loftdæmið fyrir ofan hausinn á mér. Og það er nú bara alveg ógeðslegt, satt að segja.

Ég held að við eigum eftir að komast að því að loft er nauðsynlegt fyrir fólk. Og þá bara venjulegt útiloft. Loft er ekki lengur loft þegar það er búið að liggja í einhverjum "stokkum".  Allavega. Ef ég verð hausinn á mér stíflast aftur þegar ég kem heim frá London, þá ætla ég að prófa að skipta um borð og færa mig frá óbjóðnum. Annars langar mig líka, ef einhver kraftaverk skyldu nú einhverntíma gerast í fjármálum, að taka bílskúrinn hans Ella frænda á leigu líka og búa mér til skrifstofu í einu horninu á honum. Með engu interneti, en þar sem ég get haft eins hátt eins og mér sýnist og spilað og sungið á milli ritgerðaskrifa. Það væri nú osom.

Og nú er allt á síðustu metrunum, einhvernveginn. Lesið úr 8 leikritum á Grósku í gær. Það var gaman. Úr 10 í viðbót í kvöld, þ.á.m. mínu. Ekki verður það nú öldungis leiðinlegt heldur. Og á morgun verður eitthvað lítið og sætt málþing um stöðu leikskáldsins. Þar ætla ég að framsegja allt sem mér dettur í hug. Og mikið verður nú gaman seinnipartinn á morgun þegar ég verð búin að því. Þá get ég einbeitt mér að því að hafa áhyggjur af hálfþýsku egghöfðunum sem ég ætla að messa yfir í London á fimmtudaginn.

Maður lifandi. Áhugaverðir tímar, aldeilis.

Engin ummæli: