29.11.11

Aðventumenningarkæruleysisferð

Eins og það er nú skemmtilegt að skrifa doktorsritgerð, aðstoðarleikstýra og ala upp 3 börn, þá er ekki laust við að stundum verði maður ofurlítið þreyttur. Minn, þó, ef maður getur stillt sig um að fara á límingunum af stressi. Sem hefur gengið óvenjuvel.

Rannsóknarskip er þó búinn að vera að segja mér að ég ætti að fara einhverntíma í húsmæðraorlof. En þegar ég fer í burtu frá fjölskyldunni er ég venjulega á ráðstefnu, leiklistarhátíð eða fundi, gjarnan að halda ræður eða fyrirlestra, skrifa fundargerð... halda hátíðina... sem sagt, gera eitthvað. Og nú er ég með kvef, þannig að elskulegur eiginmaður minn ákvað að gefa mér flugpunktana sína svo ég geti skverað mér austur á land um rúmlega næstu helgi. Hringdi í mömmu í gærkveldi og hún las fyrir mig upp úr Dagskránni eitt og annað sem ég þarf að mæta á. Upplestur úr nýútgefnum austfirskum bókum í Safnahúsinu á fimmtudagskvöld, Stones og Bítlarnir í Valaskjálf (!) nýbúið að opna nýjan/gamlan pöbb, ábyggilega eitthvað um að vera í Sláturhúsinu. (Sem er menningarmiðstöð, sko.) Já, og aðventutónleikar í kirkjunni.

Það er nefnilega brjálað menningarlíf á Egilsstöðum. Ég bjó þar í 9 mánuði ársins 2003 og það var ekki flóafriður. Þess vegna finnst mér alltaf jafnfyndið að hitta fólk sem býr á Egilsstöðum og segir „það er aldrei neitt um að vera hérna...“ Émdi segja að það fólk læsi ekki dagskrána sína. Sumir bakka reyndar í að segja, það er ekkert um að vera FYRIR UNGA FÓLKIÐ, sko. Ég var líka grunnskóla og menntaskólanemi á Egilsstöðum. Brjálað að gera. Endalaust gaman. Leikfélög, skólaheimsóknir, ræðukeppnir, hljómsveitir... En ef menn vilja geta keypt sér skemmtun í þægilegum og notendavænum umbúðum, þá er ekkert víst að neinn nenni að standa í iðnframleiðslu á svoleiðis.
En til þess er Stöð 2 og feisbúkk.

Er allavega farin að hlakka massíft til. Þarf reyndar að láta eiginmanninn um að fara á jólaball með börnin og missi af einum kórtónleikum sem ég ætlaði á með dótturina. En verð bara að biðja menn vel og vandlega um að mynda hvert örstutt spor. Sjálf er ég kvefuð og úldin og er komin á eftir með slatta af einhverju sem tekur enga stund að gera og ætla að rigga upp einhverjum styrkumsóknum fyrir austan svona á milli þess sem ég heimsæki fólk og stunda menningarviðburði. Kem austur að morgni afmælis ömmu minnar og Mæju-mömm-ans-Aðalbjörns þannig að sá dagur fer í að koma Egilsstaðafrúm á óvart.

Reikna með að koma til baka með hlaðin batterí fyrir jólaundirbúning og lokaskrensið á leikriti Hugleiks (hvers nafn hefur ekki verið opinberað, en verður GOTT og frumsýnist í lok jan/byrjun feb.

Engin ummæli: