7.9.12

Og hvernig gengur svo?

Skemmst frá því að segja að Fyrirmyndardóttirin í foreldrahúsum gerir lítið annað þar en að láta þjóna sér. Réttsvo ræður við að þvo af sér leppana en lætur móður sína elda fyrir sig á hverju kvöldi. Af öðrum afrekum fyrirætluðum hefur nákvæmlega ekkert gerst. Nema, jú, ég held ég sé búin að missa einhver kíló. Svo gekk ég úr Seyðisfirði í Loðmundarfjörð um síðustu helgi í góðum félagsskap og stefnan var nú sett á Eiríksstaðahneflana um helgina, en það er spáð haugarigningu.

Svo í staðinn býst ég við að klára bara að mála fyrrverandi og verðandi herbergið mitt.

Það sem hefur gerst síðan ég gerðist grasekkja á Egilsstöðum er fyrst og fremst það að ég hef verið að vinna. Inn á milli stunda ég síðan óstjórnlega holla og heilbrigða lifnaðarhætti. Skyndibitafæði hefur ekki komið inn fyrir mínar varir síðan í síðustu bæjarferð og háttatími er fyrir ellefu öll kveld. Já, og ég hef farið út að hlaupa á hverjum degi, að undanskildum hræðilegu harðsperrudögunum tveimur eftir Loðmundarfjarðagöngu.

Í dag verður lokið við þrjár styrkumsóknir og þær helst sendar þangað sem þær eiga að fara. Að því loknu skal hlaupið reglulega langt og síðan málað og málað.

Á kvöldin þýði ég Önnu í Avonlea. En að því loknu skal skrifast áðurlofuð grein í ritrýnt tímarit.

En Egilsstaðir eru annars sælureitur á jörð. Nú skjóta menn hreindýr, fara í berjamó og gera sultur. Langt síðan maður hefur tekið svona vel eftir því hvaða árstími er. Um daginn var hið árlega fuglafyllerí. Það er þegar þrestirnir éta öll reyniberin af trjánum, eftir fyrsta frost þegar þau eru orðin gerjuð, og fljúga síðan blindfullir á stofugluggana í bænum. Þrír lágu dauðir í garðinum hjá foreldrunum mínum einn daginn, og kettirnir átu þá áður en við náðum að henda þeim.

Haustlitirnir eru líka franir að láta á sér kræla og ég get ekki beðið eftir að taka myndir af þeim. Í næstu viku er ég síðan á leiðinni suðurum að passa fjölskylduna í 10 daga eða svo. Það verður nú skemmtileg tilbreytni.

Það er annars frekar þægilegt að vera með starfið og fjölskylduna svona alveg sitthvorumegin á landinu. Ef eitthvað mætti finna að því þá er það samviskubitið á báða bóga. Vinnumegin sinni ég ekki fjölskyldunni, og fjölskyldumegin er ég ekki í vinnunni.

Svo ég hlakka til að fá gengið mitt hingað í vor.

Engin ummæli: