17.12.07

Mmmmoooonnntttt!

Oft hefur nú monts verið þörf, en sjaldan sem nú.

Í morgun, þegar ég var búin að ganga frá Þýðingafræðiritgerðinni, sem ég þurfti ekki að skila fyrr en á morgun, gerði ég mér örsmátt fyrir og kláraði bara lokaverkefnið í Ritstjórninni og hræðilegu skrifunum líka. Sem ég hefði ekki þurft að skila fyrr en hinn daginn. Þegar þarna var komið sögu var ennþá svo eldsnemmt morguns að ég náði að fara upp á Bandalag í kaffi og kjaftæði og ljósritun á aukadrasli sem þurfti að skilast með verkefnum, og ég náði meiraðsegja líka bæði í bókhlöðuna og Lánasjóðinn áður en ég mætti í M-jóga og -sund.

Í jóganu og sundinu voru allir, góðu heilli, með jafnvægisæfingaþema í dag. Það var djufflinum erfiðara, en vafalaust því hollara.

Eftir M vatt ég mér upp í háskóla, skilaði verkefnunum og lauk smá erindi við Nemendaskrá. Ég er sem sagt búin í skólanum!

Ekki var látið staðar numið, heldur fór ég og sótti Rannsóknarskip og við náðum að færa einn bílfarm af jólagjöfum heim, áður en við sóttum Freigátuna. Að því loknu sóttum við annað eins. Það sem eftir er af jólagjöfum verður sópað upp á morgun, en þá ætlar Móðurskipið að taka Kringluna með hælkrók og þreföldu áhlaupi.

Rannsóknarskip lauk þrifum á heimilinu í gær, (fyrir utan skrifstofuna sem enn ber nokkurn námsmerki sem stendur uppá Móðurskipið að laga).

Svo það á næstum bara eftir að pakka inn jólagjöfum og jólaskreyta smá.
Svo mega jólin bara koma...

16.12.07

Óli hass og Satan

Freigátan verður syngnari með hverjum deginum. Hún er merkilega lagviss, en skírmælgin er nú ekki alveg komin á skiljanlegt ról. Allavega ekki alltaf. 

Ólar hafa verið svolítið vinsælir undanfarið. Bæði Prik og Skans. Óli Skans hét reyndar lengi vel aldrei annað en Óli Hass.

En daginn sem Satan átti syni sjö stóð mér nú ekki alveg á sama...

Nýjasta nýtt

Mamma ætlar víst ekki að hafa Hamborgarhrygg á aðfangadaxkvöld. Vegna þess að ég sé svo ólétt og hún heldur að ég bjúgni mér til óbóta af honum. Í staðinn ætlar hún að hafa purusteik. En það er allt í lagi, við tókum nefnilega forskot á jólin í gær og borðuðum Hamborgarhrygg og tilheyrandi hjá afa og ömmu Smábátsins. Hah!

Þetta varð okkur til ógurlega mikillar orku. Allavega er Rannsóknarskip búinn að vera að hamast við að taka til í allan morgun, með dyggri aðstoð Freigátunnar, og ég er eitthvað að maukast við að mjatla saman þýðingafræðiritgerðinni og ætti að geta klárað í dag, ef duglegur halda. Er reyndar kolringluð ennþá og svitna yfir öllusaman, en ætla og skal og get bara farið í bað á eftir.

Í augnablikinu er reyndar pása. Rannsóknarskip fór að horfa á Mjög Mikilvægan Fóboltaleik, Freigátan lagði sig og ég settist í einhverri rælni fyrir framan Silfur Egils. Og er búin að komast að sömu niðurstöðu og venjulega þegar ég hlusta á þann þátt. Allir eru bjánar.

Þannig að; ætli ég haldi ekki bara áfram að ritgerða... eða leggi ringlaða hausinn á mér aðeins.

Fór annars í jóga í gær. Það var um það bil það erfiðasta sem ég hef nokkurn tíma gert. Sjitt hvað jafnvægis- og öndunar eitthvað er erfitt með ringli. En ringlið var miklu betra á eftir. Svo að á morgun ætla ég bæði í M-jóga og sund, eins og ekkert c og vera dugleg í því í vikunni og gá hvort ég næ aftur á mér hausnum fyrir jól! Enda, samkvæmt síðustu fréttum af Bárubloggi um Egilsstaðafærðina er víst vissara að vera með öll tæki og tól til að hanga á löppunum í lagi þegar þangað verður komið.

Annars finnst mér líka orðið lítið pláss til að anda, borða, eða athafna sig að innan. 
Barnið í sjálfri mér vex með ógnarhraða.

14.12.07

Brjálað veður...

En Smábáturinn fór samt í skólann í morgun, en verður sóttur á eftir.
Ég keyrði Freigátuna í leikskólann í morgun... er ekki viss um að það hafi verið góð hugmynd, svona ökuhæfnilega séð. Fór svo til eyrnafræðings í Fossvoginum. Hann vottorðaði mig, en gat annars lítið gert fyrir mig. Ég er með fína heyrn og augnhreyfingar þannig að nú á þetta bara að vera alveg að verða gott. Og ég má fara í bumbusund og jóga og allt sem még sýnist. Og vera dugleg að leggja mig á milli. Það versta er að það mikilvægasta kemur líklega seinast, hæfileikar til fyrirframantölvusetu. Oooo.

Held ég skrópi nú samt í sund í dag, menn eiga víst ekkert að vera á ferli. Er að huxa um að fara hreint ekkert meira út. Rannsóknarskip ætlar að koma til að sækja börnin og passa þau svo. Ætli verði ekki bara farið í að þrífa og skreyta þangað til flugfært verður fyrir Smábátinn á Norðurlandið. Sem líklega verður nú ekki fyrr en í fyrramálið.

En ég er nú óttalega hringluð og ætla að taka því frekar rólega í dag. Enda hafa allar þrýstilínurnar ekkert sérstaklega góð áhrif.

En ég er bjartsýn á að geta skilað ritgerðum nokkurn veginn innan skekkjumarka. Vonandi.

Jæjah... bezt að leggja sig nú vel og vandlega.

13.12.07

Mjakast

Þýðingafræðikennarinn minn er dúlla. Hún gaf mér vikufrest á ritgerðinni gegn framvísun læknisvottorðs. Og í dag er ég farin að geta ritgerðað ponkulítið. Ef ég sit stutt fyrir framan tölvuna og geri síðan eitthvað annað lengi. Er búin að fá mér langan göngutúr og eina langa laggningu og næst þegar ég þarf að hreyfa mig að planið að taka til í einum og einum fataskáp.

Smábátur er að fara í ammli, Rannsóknarskip situr sveittur í sínum skóla og fer yfir verkefni og próf, og Freigátan er í næstsíðustu vikunni á leikskólanum fyrir jól! Garg! Hvert fór tíminn?

Smábáturinn fer norður um helgina (ef veður leyfir, það er víst von á enn einum storminum) og Rannsóknarskip er með mikil plön um jólahreingerningar. Við Freigáta erum með mikil plön um að reyna að vera ekki mikið fyrir.

En, þetta gengur víst ekki. Einn, tveir og.... eitthvað

12.12.07

Ókeiókei

Hlutirnir í samhengi. Hitti ljósmóður í dag. Eitthvað leist henni ekki á hjartsláttinn í Ofurlitlu Duggunni og sendi mig í mónitor. En þar virkaði allt í ljómandi fínu lagi.

Allavega, ritgerðir smitgerðir, skítt með akademíuna, það er þó allt í góðu lagi með barnið.

Aðrar hverjar fimmínútur finnst mér ég vera að skána. Ætla að reyna að komast með Freigátuna í leikskólann í fyrramálið, fyrir eigin vélarafli. Líður enda best þegar ég er á ferðinni. Það eina sem ég get hreint ekki ennþá er að sitja við tölvuna af einhverju viti. En ætla nú samt að gera heiðarlega tilraun á morgun. Og svo skal eyrnalæknirinn fá að skrifa feitt vottorð á föstudaginn sem afsakar allt sem ég hef nokkurn tíma ekki gert.

Svo mar á kannski ekkert ógurlega bágt, í stórveraldlegu samhengi.

Helv...

Ég veit ekki undir hvaða stjörnuspeki það fellur, en innra eyrað á mér á greinilega til að vera eitthvað geðveikt í desember. Nánar tiltekið, það vinstra. Nú er mér batnað af hræðilegu veikinni, sem var eiginlega bara hiti og svimi, sem var líklega útaf einhverju í innra eyra, eins og í desember fyrir 6 árum síðan, en ringlið er eftir.

Ég er öll alveg kolhringluð í hausnum og er ekki beint að fara að skila ritgerð í dag, eins og ég átti að gera. Er samt komin með vottorð, og ætla að reyna að skila á föstudaginn. Er að fara að hitta ljósmóður á eftir og eyrnalækni á föstudag og sá skal sko aldeilis fá að lækna mig, eða vottorða mig í bak og fyrir að ég geti ekki neitt í skólanum. Ég verð alveg gjörsamlega brjáluð ef þetta helvítis fokk á að eyðileggja fyrir mér helminginn af þessari annars ljómandi önn. Grrrr. Ég vissi ekki að það væri hægt að verða svona ógeðslega pirraður út í líkamspart á sjálfum sér. Ég er alvarlega að huxa um að láta taka úr mér innra eyrað. Helst bæði.

Semsagt, í staðinn fyrir að jólast um allt eins og vindurinn og hafa ógurlega mikla aðventu eitthvað, næstu vikuna, verð ég líklega hálfringluð, stressuð og geðvond að reyna að draga tvær ritgerðir útúr félaxheimilinu á mér, sem ég var annars alveg búin að sjá fram á að geta gert geðveikt vel.

Ég næ ekki upp í nefið á mér fyrir geðvonzku yfir þessum fjára!