29.12.03

...og 10 kílóum síðar...

Þetta voru lötustu jól mannkynssögunnar. Ládeyðan á heimilinu var svo algjör að Hugrún systir mín litaði á sér hárið út úr leiðindum, fór ekki eftir leiðbeiningunum og er nú eins og páskungi um hausinn. Þegar ég var búin að hía á hana stanslaust í sólarhring fór hún í bæinn og tók eiginlega allt draslið mitt með sér þannig að nú er ég eiginlega flutt til Reykjavíkur með allt nema sjálfa mig.

Bára systir mín var brúðarmær í hálfamerísku brúðkaupi hjá vinkonu sinni. Við vorum búnar að spá mikið í það hvort þetta yrði ekki örugglega alveg eins og í amerískri sápu, en það gerðist ekkert spennandi. Brúðurin stakk ekki af, brúðguminn kom ekki út úr skápnum og það kom enginn löngu týndur skáfrændi, sem þjáðst hafði af minnisleysi, hlaupandi inn í kirkjuna á síðustu stundu til að segja þeim að þau væru systkini. Semsagt, ekkert spennandi.

Ég er eiginlega ekki búin að vera neitt að nenna að hitta fólk, þrátt fyrir fögur fyrirheit. Fór eitt kvöld í partý og svo á ball en þar hitti ég alla og nokkra í viðbót þannig að ég ætla ekkert að vera með of mikinn móral yfir því að vera félagsskítur.

Á þessum letijólum er ég hins vegar búin að verja gífurlegum tíma til sjónvarpsgláps. Ég er t.d. búin að komast að því að Titanic hefur ekkert skánað síðan ég sá hana síðast. Englar alheimsins hefur ekkert versnað heldur. (Batnað heldur en hitt við það að vita af því að það er unnusti minn sem er eitt af löggukjánunum sem óðu út í tjörnina...)
Moulin Rouge er svakalega undarleg mynd. Ég vissi svosem ekkert við hverju ég bjóst... og hún olli mér heilabrotum. Ég veit ekki alveg hvað mér fannst. Svo horfði ég á X-Men. Alltaf gaman að stökkbreytingar- og ofurmennapælingum. Handritið frekar glatað, samt.
Svo voru náttúrulega klassíkurnar, The Muppets Chrismas Carols, The Nightmare Before Chrismas og My Fair Lady, sem standa jú alltaf fyrir sínu.

Og svo eru það náttúrulega bara áramótin.
Áramótapistillinn í ár verður náttúrulega á blogginu. Ég er búin að skrifa þá í nokkur ár og senda, ýmist fjölskyldunni eða ættingjum fyrir vestan eða bara vinum og kunningjum. Var að huxa um að birta þá gömlu hér í leiðinni, en er búin að tína þeim. Allavega, hann kemur á Gamlársdag.

Engin ummæli: