12.12.03

Jólalagaumræðan sem hefur verið í spjallkerfi Varríusar er búin að vera mjög spennandi og fyndin. Gleðihangikjötið hennar Helgu Möller gleður mig t.d. óskaplega mikið þessi jól, svo ekki sé minnst á söguskýringu Huldar á henni jómfrú Önnu sem dansaði í kringum lurk uppi á stól og var eftir það kölluð Anna Tussa.
(Umræða sem spannst út frá "Jólasveinar ganga um gólf", ef menn vilja alla söguna þá þurfa þeir að grafa í kommentakerfi Varríusar. Mér á allavega alltaf eftir að detta þessi saga í hug þegar ég heyri þetta lag, miklu frekar en einhverjar bragfræðilegar umbætur.)

Svo var ég að heyra eitt. Það er til jólalag með Pálma Gunnarssyni þar sem hann syngur, aftur og aftur: "Ógleðileg Jól".
Það minnir mig alltaf á það þegar við Berglind tókum að okkur, af hrikalegu fyrirhyggjuleysi, að vera forsöngvarar á jólaballi á sunnudegi á milli jóla og nýjárs. Að sjálfsögðu vorum við aðframkomnar af timburmönnum einmitt þann dag. Það voru frekar ógleðileg Jól.

Annars, erum að undirbúa jólaflipp í safnahúsinu, ætlum að hafa Dísufyrirlestur um uppruna jólakorta og Dúrrubakaðar lummur og gamaldax jólasveina. Getur ekki klikkað.

Engin ummæli: