Ég er búin að vera út úr heiminum undanfarin ár.
Er alltaf að sjá það betur og betur. Auðvitað hafa vetursetur undanfarið verið hafðar í ýmsum afkimum veraldar, en mér þykir þó ótrúlega margt hafa breyst. Svona burtséð frá því að tækjaval skrifstofunnar minnar er allt annað (nýjar tölvur, prentarar, eldhús að ógleymdri vítisvélinni) þá eru dópistar í hverjum kjallara, handrukkarar í stigaganginum, tippislaga verslunarmiðstöð í Kópavoginum og ýmislegt fleira forvitnilegt um allt.
Hluti af því verndaða umhverfi sem ég bjó við í 3. mestu glæpaborg Frakklands, dópbæli í Glaðskógum og foreldrahúsum á Egilsstöðum, var það að allur minn tölvupóstur kom í gegnum háskólanetið. Ég veit ekki hvernig þeir fara að því, en einhverra hluta vegna hef ég aldrei fengið ruslpóst í gegnum þann vefþjón. Það urðu því nokkur viðbrigði þegar ég tók aftur við minni stöðu á þessari virðulegu stofnun og mín fór að bíða hvern morgun það skemmtilega verkefni að fara í gegnum ruslpóstinn sem kemur inn á póstþjón leiklist.is. Ég skemmti mér oft konunglega við að spá í þennan heimsósóma.
Tvær tegundir ruslpósta eru mest áberandi. Annars vegar betl- og peningaþvottapóstur frá Afríku og Mið-Austurlöndum og hins vegar tilboð um tippastækkanir og graðlyf hverskonar. Aðra tegundina get ég svo sem skilið. Sumir hafa meira en aðrir og ekki að undra þó hinir vilji líka fá.
En svo er það þetta með tippin.
Ég er kannski enginn sérfræðingur og hef svosem kannski ekki persónulega gert marktækt úrtak, en séu linir og litlir eitthvað vandamál þá hef ég hvorki reynt það á eigin skinni, né heldur veit ég til þess að þetta hafi verið vandamál hjá neinum sem ég þekki. (Og ég þekki marga sem ég tala við um margt.)
Hef grun um að þetta sé græðgisvæðingin. Allir vilja meira af öllu, líka kynlífi. Ég hef séð tilboð um ýmis konar lyf sem á að gera mönnum kleift að halda áfram klukkutímunum saman... Þá hlýtur maður að spyrja sig, hefur fólk ekkert betra við tíma sinn að gera? Eru menn kannski bara búnir að fá leið á DVD spilurunum, tölvuleikjunum og öllu hinu sem hefur verið að eyða tíma fólks undanfarið?
Kannski vantar bara fleiri hobbý.
Það er alltént skemmtilegt að spá í spömin út frá þeirri kenningu að framboð hljóti að skapast af eftirspurn. Ég hef líka verið mikil að spá í auglýsingar almennt, hverjir eru að auglýsa hvað og hvernig og er það undirbúningur fyrir stórkemmtilegt námskeið sem ég er að fara á. Þar trúi ég að eigi eitthvað að fjalla um innrætingarmátt auglýsinga og orðaleppa samtímans.
Ég held nú samt að það sé alveg sama hvað ég fæ mörg spennandi tilboð í meilinum mínum, þeir sannfæra mig aldrei um að mig vanti stærra tippi.
15.1.04
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli