22.3.04

Er búin að vera hryllilega löt og syfjuð og lítið upplífgandi undanfarið, þrátt fyrir mikinn hasar allt í kring. Er með kenningar um einhvern vítamínskort og svo náttúrulega ritgerðarófétið sem hangir ennþá yfir mér eins og 5 ára gamalt óveðurský. En nú skal gripið réttri hendi í rassinn á sér og ástandið snúið niður með annarri hendi.

1. Fara í ljós í leiðinni heim úr vinnunni til þess að:
a) fá góðan skammt af c-vítamíni
b) gera heiðarlega tilraun til endurheimta fyrri fegurð og yndisþokka (sem er óðum að hverfa undir ljósgrænan húðlit og svarta hringi í kringum augu).

2. Urlast heim og taka ritgerðina í bakaríið til svona ca. 4-5 leytis.

3. Fara að því loknu í góða gönguferð sem endar líklega á skrifstofunni.

4. Halda áfram að ritgerða fram að Survivor.

5. Fara fáránlega snemma að sofa.

Verði af þessu öllu gerir minna til þó morgundagurinn fari í kaffi og versl með Svandísi og kvöldið í Leikfélag Hafnarfjarðar.

Heitmaður minn og unnusti (sem þarf að taka einn dag í einu) nýr mér því óspart um nasir þessa dagana að vera skipulaxfíkill (þurfa helst að vita allt nákvæmilega um mánuð fram í tímann) og hefur mikið til síns máls. Það sem mér fannst t.d. mest heillandi við leikhúsvinnu, til að byrja með, var það að það gerðist í aðalatriðum það sama á hverri leiksýningu. Meira og minna hvert spor og athöfn fyrirfram plönuð frá seinniparti til miðnættis. Af sömu ástæðu gætu ég og mín kvíðaröskun aldrei tekið þátt í spunasýningu.

Skemmti mér líka konunglega um árið þegar ég lenti óvart á miðvikudaxfyllerí með fjórum MORFÍS dómurum. Þrátt fyrir að það væri, að forminu til, skyndihugdetta, var byrjað á að setjast niður og gera dagskrá í einhverjum 5 liðum, a b og c. Ennþá eitt það alskemmtilegasta sem ég hef gert um ævina en sjaldan hefur mér vafist jafnoft tunga um höfuð á einu kvöldi, þar sem nöfn þessara manna voru undarlega samslungin. Ef þeir Hjálmar, Hjörvar, Tjörvi og Ari Knörr eru einhversstaðar á lífi vona ég að þeim heilsist.

Mér finnst gott að skipuleggja yfir mig, en verð að sama skapi alveg vitlaus þegar skipulagið klúðrast.

Gott að átta sig á sínum takmörkunum, og lifa bara samkvæmt þeim.

Og, bæðevei, ég er ENNÞÁ 29 ára!

Engin ummæli: