16.8.04

Já, íbúðakaupamanían er að taka völdin, hægt og örugglega.

Er búin að gera nokkur bráðabirgðagreiðslumöt á netinu, bara svona til að gá hvað ég myndi fá, miðað við hin og þessi skammtímalán upp í útborgun. Það er nú mjög misjafnt, allt eitthvað frá 7 milljónum upp í 10. (Sem er talsvert meira en ég átti von á... gæti sennilega keypt mér kastala ef ég væri í fullri vinnu...)

Held mig nú samt trúlega nálægt neðri mörkunum á þessu til að ég fari nú ekki beint á hausinn. Ætla í bankann og sækja um greiðslumat á eftir. Svo var líka að rifjast upp fyrir mér að ég fékk bréf frá KB banka um daginn þar sem hann bauð mér gull og græn lán (og peningaveski með engu klinkhólfi) fyrir að vera svona góður viðskiptavinur. Kannski getur mar eitthvað notað það.

Allavega, best að taka eitt hænufet í einu og gá hvað gerist. Svo vill svo skemmtilega til að næstum allir sem ég þekki eru nýlega búnir að kaupa sér íbúðir þannig að það er stutt að sækja góð ráð í allar áttir.

En, hvað geri ég þegar ég hef síðan kannski heila íbúð til umráða alein!? Fæ örugglega panikkattakk, veit ekkert hvað ég á að gera við mig og sest bara út í horn og grenja... til að byrja með. En, það verður spennandi að sjá hvað kemur upp úr kössununum mínum sem allir eru búnir að vera í geymslum hingað og þangað frá því að elstu menn muna og ég man ekki lengur hvað er í.

Já, það er margt í mörgu. Systir mín hin eldri er víst farin að hafa augastað á nýju ökutæki þannig að kannski fæ ég bráðum grænuna hennar ömmu til afnota. Svo er ég nú að huxa um að fara að krukka eitthvað í þessi leikrit sem ég er með í smíðum. Er að horfa með nokkurri öfund á hin og þessi leikskáld samtímans sem spreða frá sér leikritum eins og þau fái borgað fyrir það... sem þau reyndar gera, sum, á meðan ég ligg á einhverri fornri smáfrægð með haug af hálfskrifuðu dóti og geri ekki rass í bala. Þetta er ekki fallegt afspurnar...

Engin ummæli: