10.12.04

Nú er heima.
Nákvæmlega 2 vikur í aðfangadag, baðkarið mjakast nær og nær Betlehem og þjóðfélagið nær og nær barmi taugaáfalls, og ég er ekkert farin að gera. Íbúðin mín lítur alls ekki út eins og systir mín hin smámunasamari sé að fara að vera þar um áramótin og ég veit ekki neitt um jólagjafir handa neinum. Sé fram að að eyða næstu tveimur helgum í Smáralindinni með taugadrullu.

Desember, alltaf sama stuðið.

Get þó ekki á mér setið að senda öllum námsmönnum nær og fjær innilegar samúðarkveðjur. Man allt of greinilega hvað þeir eru að ganga í gegnum *hryll* allavega nógu vel til að ætla aldrei að læra neitt framar.

Ég man hins vegar ennþá lengra aftur þegar desember var skemmtilegasti mánuður í heimi. Maður fékk súkkulaðidagatal (ekki enn búið að finna upp á þeirri fásinnu að súkkulaði væri óhollur morgunmatur fyrir börn), fékk í skóinn, og svo var jólaköku- og laufabrauðsbakstur og amma gerði flatbrauð niðri í kjallara. Og litlujól. Og alvörujól. Og áramót sem voru ekkert misheppnuð þó manni láðist að detta íða og manni var alveg sama hver væri að spila á ballinu. Gjörsamlega endalaus haugur af skemmtan.

Hvað varð eiginlega af þessu öllu saman? Það kannski bara rétt sem mamma mín (hin næstum sextuga kona sem er ekki orðin amma) andvarpar um hver jól: Það eru nú eiginlega engin jól nema það séu börn...

Beini þeim tilmælum til bróður míns, hins harðgifta, að fara nú að bæta úr þessu! Helst fyrir jól!
(Ef hann þorir... veit reyndar ekki hvernig nokkru barni myndi reiða af með þrjár frenjur eins og okkur systur hans fyrir föðursystur... þannig að ég skil vel ef hann þorir ekki...)

Engin ummæli: