23.3.05

Meira norð

Mikil lognmolla hvílir á þessum síðasta vinnudegi fyrir páska. Held helst að allir séu komnir í páskaletina.

Í gær upplifði ég mikla rómantík í formi gönguferða um miðbæ og þingholt í samfylgd Rannsóknarskips og Smábáts. Horfði ég að venju girndarauga til margra villa við Fjölnisveg og einnig litum við nokkur hús við Skólavörðustíg hýru auga. Nýjasta fantasía okkar Árna felst nefnilega í því að búa til pínulitla bókabúð, þar sem aðeins verða seldar fáar og góðar bækur, líka selt kaffi, og bara fáir koma nokkurn tíma inní. Og svo ætlum við að búa á efri hæðinni. Þetta er á 20-30 ára planinu. Er það trú okkar og vissa að Skólavörðustígurinn sé upplagður. Fyrst þurfum við samt að eignast ósköpin öll af peningum, fyrir tilviljun þar sem við nennum ekki að vinna neitt obbosslega mikið, þar sem þessi verslun á aldrei að komast nálægt því að standa undir sér.

Í nútíðinni og raunveruleikanum ætlum við að bruna norður yfir heiðar seinnipartinn þar sem ætlunin er að páska. Mig langar talsvert að sjá sýningu Leikfélax Húsavíkur á Sambýlingum, en maður veit ekki hvað verður úr.

Svo þarf líka að leggja höfuðið örlítið í bleyti og vinna aðeins í meistaraverkum á sviði leikritunar. Mest væri náttlega gaman að púlla Björn Margeir og skrifa MIKIÐ. Samt kannski ólíklegt að svoleiðis elja komi allt í einu til. Og, já, Gummi, ég ætla að reyna að klára eitthvað handa þér líka.

Annars er ég mjög stolt af nýbloggaranum henni systur minni í dag. Hún er fyndin.

Gleðilega páska, ef ég tjái mig ekkert fyrr en eftir þá.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góða ferð norðrí land.