18.7.05

Í dag

dregur til tíðinda. Norðan heiða sem sunnan. Ég er að fara á kaupsamningsfund á eftir og losa mig þar við jarðnesku eiguna mína. Og Rannsóknarskipið er að gera slíkt hið sama með sína heimahöfn. Þá verðum við bæði heimilislaus og algjörlega komin upp á náð og miskunn Ragnars Skjálfta og Ingibjargar frá Tjörn uppá þak yfir höfuðin næstu mánuði eða ár. En það eru nú sjálfsagt margir staðir verri til að búa á en Tryggvagatan, svona á meðan maður bíður eftir hruninu á fasteignamarkaðnum sem DV spáði um daginn.

Enda er ég orðinn forfallinn áhorfandi þáttanna Þak yfir höfuðið á skjá einum og villurnar sem mig langar í verða dýrari með hverri vikunni. Þannig að það er eins gott að ávaxta gróðann af fasteignabraskinu mínu vel. (Mér finnst annars alveg snilld hvað hann er mikill.

Þegar ég keypti íbúðina mína, bara fyrir örfáum mánuðum, þá ætlaði ég nú bara að pipra í henni fram á efstu ár. Prjóna og hræða börnin í nágrenninu með fordæðuskap. Svona geta nú skipast ógurlega skjótt veður í lofti. Innan við ár síðan og ég búin að græða á fasteignabraski og að fara að stofna stórfjölskyldu. Hefði einhver reynt að segja mér þetta daginn sem ég skrifaði undir kaupsamninginn hefði ég nú bara sagt viðkomandi að taka pillurnar sínar.

Engin ummæli: