22.7.05

Málsvari skrattans...

Nú var ég að lesa á Varríusi mikinn pistil um hver hinna vestrænu gilda séu þess virði að fyrir þeim sé barist. Ég huxaði dáldið, og þó ég sé í grundvallaratriðum sammála, þá get ég ekki annað en að vera málsvari andskotans í smá stund. Mér þykja þessi 4 atriði, sem Varríus hefur eftir ágætri skilgreiningu Egils Helgasonar, ekki vera alltaf svo klippt og skorin. Og stundum er ekki laust við að þau rekist á.

Trúfrelsi: Er gott, auðvitað. Menn eiga að fá að ráða því á hvað þeir trúa. En trúfrelsi eins og það er stundað á vesturlöndum felur það líka í sér að til mega vera söfnuðir þar sem menn stunda að gifta 14 ára dætur sínar fimmtugum frændum sínum og halda þeim ómenntuðum og óupplýstum í afmörkuðum samfélögum um öll norðvesturríki Bandaríkjanna. Þarna rekst trúfrelsið óneitanlega á kvenfrelsið, ekki satt? En leiðtogar safnaðanna trúa því að þeir séu að gera rétt og þjóna guði sínum, og mega það, samkvæmt trúfrelsi sínu, ekki satt?

Kvenfrelsi: Jú, satt er það, hér á vesturlöndum ku réttarstaða vor vera ögn skárri en búfjár. (Ja, ef maður er ekki að rýna um of í refsilöggjöf við kynferðislegu ofbeldi.) Á hinn bóginn er það löngu orðið lýðum ljóst að líkamar og sjálfsvirðing kvenna er nú víða til sölu... vissulega má segja sem svo að það sé algjörlega okkar mál hvernig við högum lífum okkar, hvort við rökum lappirnar, eyðum pening í að láta stækka hitt og þetta á okkur eða græðum morðfjár á klámi. Og vissulega eru síðan réttindi lýðfrelsisins að geta þessa áratugina keypt hvað sem er, dautt eða lifandi. Vissulega hafa verið sett lög á ýmislegt, eins og vændi. Þau virðast bara eiginlega ekki halda, og svo eru líka ótal leiðir fram hjá þeim. Og svo höfum við mannsalavandamál á vesturlöndum.
Mér sýnist eiginlega vera nokkuð víða pottur brotinn í hugsunarhætti vesturlandabúa varðandi mannréttindi kvenna. Ekki það að lagaumhverfið reynir að gera vel, sem og menntakerfið. En samt, en samt. Af hverju er ég alltaf að heyra á samtöl karlmanna á milli, söngtexta, og ýmislegt annað sem þrífst í skjóli tjáningafrelsis sem gerir það að verkum að maður veltir fyrir sér hvort menn viti að konur eru fólk?

Tjáningar- og lýðfrelsi:
Er vissulega af hinu góða. En hvernig á að bregðast við þegar hvað káfar uppá annað? Þegar lýðfrelsi eins káfar uppá tjáningarfrelsi annars? Þegar kvenfrelsið rekst á trúfrelsið? Eða þegar kerfið skaffar mönnum ekki þær upplýsingar sem þeir þurfa til að átta sig á eigin frelsi og réttarstöðu?

Mér finnst barátta heittrúaðra Múslima og Kristinna manna vera í pattstöðu. Þeir ætla ekki að sætta sig við klámvæðinguna. Og við ætlum ekki að sætta okkur við Talebanismann. Og báðar hliðar virðast ætla að berjast til síðasta manns. Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn þar til allur heimurinn stendur eftir blindur og tannlaus.

En er það endilega besta lausnin?

4 ummæli:

Varríus sagði...

Hárrétt að þetta sé ekki klippt og skorið. Það sagði enginn að þetta væri auðvelt. Frelsi eins rext á frelsi annars, oseisei. Og allskonar reglur og flækjur eru til þess að berja í þá bresti. Trúfrelsi takmarkast til dæmis hjá okkur af því að ekki má brjóta lög af trúarástæðum - t.d. ekki gifta 14 ára börn eða hópnauðga konum til að refsa bræðrum þeirra.

Og vissulega er samfélagsþrýstingur á konur á Vesturlöndum um háreyðingu og sílikon. Hvort að muninum á því og umskurði og grýtingum sé rétt lýst með orðunum "ögn skárri" er smekksatriði.

Aðalatriðið er þetta: Eins mikill skítur og flýtur einatt með tjáningarfrelsinu þá er það eina vonin til þess að hægt sé að berja í bresti samfélagsins. Þessvegna er það aðal málið.

Best er þessu lýst í 1984 eftir Orwell:

"Frelsi er frelsið til að segja að tveir plús tveir séu fjórir. Ef það er hægt kemur allt hitt af sjálfu sér."

Varríus sagði...

...og sammála þér um að tannlausir og blindir eiga ekki að erfa landið. Það getur verið nauðsynlegt að verja hendur sínar en það er eins langt frá því að lækna nokkurn hlut eins og að taka bólumeðal við mislingum.

Það er hinsvegar mikilvægt þegar lagt er af stað í að skilja andstæðinga sína að skilja sjálfan sig fyrst.

Sigga Lára sagði...

Já, það eru víst ekki til lausnir á nokkrum sköpuðum hlut. Maður mætti náttlega búa til einhverja kenningu á þá leið að menn ættu bara ekkert að vera að skipta sér af öðru en því sem gerist heima hjá þeim sjálfum.

En þá vaknar spurningin, á að láta heimilisofbeldi háima hjá öðrum viðgangast?

Djöfull sakna ég þess stundum að vera ung og öfgakennd í öllum skoðunum og halda að heimurinn sé svarthvítur. Núna sér maður alltaf alltof margar hliðar.
My brain hurts!

Nafnlaus sagði...

Gott ráð við alvarlegum hugsunum má finna í Klóri eftir Þorstein Guðmundsson. Þar er það reyndar gömul kona sem notar þetta fyrirmyndarhúsráð við ruglunni. Þú einfaldlegar stingur heklunál meðfram auganu eins langt inn í heilann og þú treystir þér til - og togar svo. Góða skemmtun.