28.7.05

Úrkynjun?

Hver skrattinn er fólasín? Og ef það er svona ógurlega mikilvægt fyrir ófædd börn, af hverju framleiðir maður það ekki sjálfur í skrokknum á sér? Er þetta ekki bara að verða eins og með erfðabreytt matvæli? Einhvers konar sterabúst?

Ég er búin að ganga fram af heibrigðiskerfinu með áhugaleysi og órómantískri afstöðu til meðgöngu. Druslaðist loxins í blóðprufur í dag, mánuði of seint, og gekk fram af starfsfólki með því að hafa ekki nennt í "hnakkaþykktarmælingu" (sem er ekki glæta að ég hafi nennt í nema stranglega skipað, en þetta gera víst "allir") og er alveg sama þó ég fari ekki í neinn sónar fyrr en á 20. viku. (Huxa að ég eigi eftir að sjá þetta barn alveg fullt. Örugglega of mikið stundum.)

Í gær hitti ég ljósmóðurina, sem virtist skynsemdarkona, þangað til við heyrðum hjartsláttinn og hún sagði eitthvað um "kraftaverk" og bjóst greinilega við einhverjum voða viðbrögðum. (Það lá við að ég þyrfti að gera eins og Miranda í 6 & The City þegar hún feikaði viðbrögð við sónar.) Mér datt hins vegar helst í hug að verða móðguð. Hvað er svona mikið kraftaverk? Að ég skuli geta fjölgað mér? Að mér skuli hafa tekist að halda lífi í barninu innvortis í heila 4 mánuði?

Neinei, ég skal nú ekkert vera að gera mig heimskari en ég er. Veit svo sem alveg hvað hún meinti. Og ég veit það ekki, kannski fær maður eitthvað veruleikafirringskast við fæðingu eða einhverntíma. Ég hef fulla trú á að barneignir séu geðveikt stuð. Annars væri ég ekkert að þeim. En mitt barn kemur aldrei til með að verða fyrir mér eitthvað meira "kraftaverk" en önnur. Gáfaðast og fegurst í heimi í augum móður sinnar, ekki spurning, en ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að eintak fæðist á 7 sekúndna fresti, og stundum, til dæmis í hvert skipti sem maður labbar niður Laugaveginn, er til allt of mikið af fólki. Alltsaman sömu svakalegu kraftaverkin, efast ég ekki um, en flest fara þau nú bara í pirrurnar á mér.

Ég vona bara að mér takist að klúðra ekki uppeldinu geðveikt illa. Það er víst nóg til af fábjánum, lúðulökum og uxahölum og ég myndi aldrei fyrirgefa sjálfri mér ef ég bætti í það safn.

Og helsta áhyggjuefni mitt en auðvitað það órómantískasta af öllu. Ég hef áhyggjur af að ég farist úr leiðindum í í fæðingarorlofinu. Og, já, ég veit það verður svakalega mikið að gera hjá mér og allt það. En, so sú mí, mér finnst ekki skemmtileg tilhuxun að hanga heima í 3-6 mánuði yfir meira og minna sofandi barni og þvo þvott allan daginn. Fékk martröð um daginn þar sem mig dreymdi að ég væri farin að fylgjast með Guiding Light.

Mínir jákvæðu draumórar byrja ekki fyrr en börnin mín (ójá, það er sko stefnt á heilan haug) verða orðin nógu stór til að vera fyndin. Og til að það verði hægt að gefa þeim bjór. Ég hlakka líka til að vita hvernig persónuleikar þau verða þegar þau verða stór og ég vona bara að mér takist að búa til fjölskyldu sem er jafnskemmtileg og sú sem ég var alin upp í.

En þessi mikilvægu atriði sjást ekki í neins konar hnakkaþykktarmælingu. Þess vegna sé ég ekki tilganginn með þeim.

5 ummæli:

Litla Skvís sagði...

Enda er hnakkaþykktarmæling "inn" í dag.... ég fór ekki, langaði ekki og sá engann tilgang með henni.

Sigga Lára sagði...

Hmmm... já. Það fara víst margir til að fá sónarmynd fyrr en ella... En ég verð að játa soldið. Mér finnast sónarmyndir eiginlega allar eins. Ég er ekki einu sinni viss um að þekkja mitt barn frá hinum á fæðingardeildinni, vegna þess að mér þykja nýfædd börn eiginlega líka öll eins. Eins gott að þetta sé strax merkt...

Litla Skvís sagði...

Hehe, já það er rétt, þetta er allt saman eins. Ég þekkti dóttur mína bara á lyktini, svona eins og rollurnar og lömbin!

Sigga Lára sagði...

Haha! Snilld! Já, maður ætti sennilega ekki að vanmeta sauðkindareðlið í sér.

Gummi Erlings sagði...

Iss, þetta hefur ekkert með uppeldi að gera, heldur að hæfir einstaklingar pari sig saman (eins og deffínettlí hefur gerst í þessu tilviki). Svo er bara að sitja með krosslagða putta og vona að afkvæmið geri nú ekki tóma helvítis vitleysu!