10.8.05

Mikil tíðindi:

Rannsóknarskip og Smábátur fluttu inn í gærkveldi, eftir dúk og disk með eitthvað af sínum hafurtöskum. Er allt í einu komin með stórfjölskyldu sem telur þrjá og hálfan. Og miklu meira en íbúðarfylli af dótum.

Hins vegar lítur út fyrir að ég verði bara að halda áfram að einelta mig sjálf í vinnunni, út í hið óendanlega.

Og linkur sem Linda er með á blogginu sínu í dag veldur því að ég er orðin enn hræddari við sjúkdóminn greindargliðnun. Hann ku leggjast mjög harkarlega á margt kvenfólk á barneignaaldri eins og ýmsir spjallvefir fyrir þá manngerð gefa til kynna. Er mjög fegin að mér bara allavega gæfa til að sitja í gærkvöldi og horfa á heimildarmynd um hernám Íslands í stað þess að horfa á Brúðkaupsþáttinn Já og taka þátt í að tjá mig á alnetinu um álit mitt á grátgirni karlmanna, eins og fáránlega stór hluti hins barnshafandi þjóðarbrots virðist hafa gert.

Stundum skil ég ekki kjellingar. Og finn mig á þeim tímum oft hættulega sammála systur minni hinni kjaftforri. Og langar jafnvel að láta út úr mér næstum jafn ljót fúkyrði og hún.

Og, ef eitthvað skyldi vera að marka það sem mann dreymir fyrstu nótt sambúðar? Það eina sem ég man af draumförum næturinnar var að Jón "Eymundson" mágur var kominn út úr skápnum og farinn að búa með einhverjum leikstjóra. Ekki kann ég að ráða í hvað það segir um framtíð mína.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég verð að segja elsku Sigga mín að þveröfugt við allar mínar spár, bloggar hér Óléttasta kona með hinu stærsta Ó-i sem ég hef á æfi minni augum lamið!
Þú ert komin í hnút með yfirlýsingarnar og næsta blogg fjallar örugglega um öryggishlið í stigaopum, keisaraskurði, mænudeyfingar, þurrmjólk, sárar geirur, athyglisbrest, rítalín, uppeldissálfræði, gyllinæð, liberó og eitthvað þaðan af verra!!
Þú ert þungaða kona aldarinnar, eins og ALLAR hinar konurnar sem hafa látið setja í sig barn!! Og þú og Rannsóknarskipið eigið eftir að verða taugaveikluð, svefnvana, með bauga undir augum og skyr á öxlum. Ástarjátningar ykkar munu hljóma á þessa leið: Oh.. ég elska að ... það er gubb á hálsinum á þér!
Þetta er besta skemmtun og maukið svíkur ekki. A.m.k er ég pikkföst í því og vil mig hvergi hræra!!
Góða skemmtun og ég vona að þú svíkir mig ekki en takist að troða öllum þessum atriðum í næstu færslu!!
Bið að heilsa kúlukrílinu... ;o)
Frú Ringsted

Sigga Lára sagði...

Hmmm. Veit ekki hvernig skilja skal. Er ekki frá því að menn séu að reyna að móðga mig og pirra... En svo sannarlega skal ég að mér heilli og lifandi taka allan þennan lista til rækilegrar skoðunar við tækifæri.

Nafnlaus sagði...

Móðaga eða pirra???!!!!
Aldrei mín elskuleg!
Allt meint í besta tilgangi. Láttu þér ekki detta annað í hug. Las hisvegar yfir flýtisskrifað kommenti mitt hér á undan og verð að taka undir með þér, þetta er eins og argasta móðgun! Vanda mig betur næst.
Koss og knús
Frúin

Hugrún sagði...

Sá blogg þitt um hoppurólur. Vinkona mín er ennþá hjólbeinótt eftir að hafa hossast í hoppurólu sem barn.Mæli því ekki með þessari aðferð. Nema þú ætlir að ala upp fótboltadreng, þeir eru allir hjólbeinóttir.

Sigga Lára sagði...

Issss, hún vinkona þín hefur nú sjálfsagt bara verið af hjólbeinóttum ættum. Þekki fullt af hjólbeinóttu fólki sem ólst upp fyrir tíma hoppiróla. Kannski spurning um að geyma þau ekki í þeim mánuðum saman, þó það gæti vissulega leyst ákveðin dagvistunarmál.