5.9.05

Já...

það er vandlifað. Ég er búin að komast að því að það er ekki hlaupið að því að ætla að vera óléttur og fyndinn, bæði í einu. Allt í einu eru menn eitthvað óvenjureiðubúnir að taka mínar orðglöðu yfirlýsingar alvarlega (!) sem aldrei fyrr.

(Sumir reyna síðan náttúrulega eftir á að hlaupa í skjól við kaldhæðnina, eins og óbermið hann Sævar, sem ég er farin að gruna um að hafa frú sína hlekkjaða bak við eldavélina til þess að börnin missi nú örugglega ekki takið á pilsfaldinum. Pffff.)

Það er nú samt einu sinni þannig að að innræti hef ég ekki tekið neinum sérstökum stakkaskiptum, held ég. Flest sem ég tjái mig um geri ég til að reyna að vera fyndin. (Eða pólitísk, kemur fyrir.) En mínir innstu og raunverulegustu vonir, óttar, þrár og fyrirætlanir varðandi hlutverk mæðrunar eru nú eingöngu fyrir eyru og augu eins manns. Og huxanlega einnar og einnar vinkonu undir fjögur. Svo sem eins og allt mitt væm fram til þess. Enda held ég að vandi sé um slíkt að spá, þegar maður veitt ekkert útí hvað mar er að fara og sitt sýnist hverjum í heiminum um verkefnið. Þess vegna held ég að planleggingar um líferni eftir fjölgun mannkyns séu best takmarkaðar við það sem sjóndeildarhringurinn þekkti fyrir.

Og, já, það mun koma fyrir að ég bregði mér af bæ. Þó ekki væri til annars en að forpipruð systir mín hin kjaftforri fái að uppfylla örlög sín og verða eins og Patty og Selma í Simpsons, annað slagið. Mér skilst hún sé strax farin að æfa sig að reykja og safna hári á löppunum.

Eitt er þó að frétta af barninu. (Í sjálfri mér ;-) Ég hef heyrt því fleygt að það sé misjafnt hvenær konum þyki ófædd börn þeirra verða "raunveruleg". Og sá tími getur komið allt frá því að þær pissa á prikið og þangað til barnið er um fermingu. Mér varð ekkert sérstaklega um hreyfingar eða sónarmynd. En ég er ekki frá því að barnunginn hafi "líkamnast" aðeins fyrir mér síðustu nótt. Mig nefnilega dreymdi að ég héldi á því. Ég vaknaði svolítið með þá tilfinningu að það hefði gerst í alvöru.

(Síðan hélt draumurinn auðvitað áfram á þá leið að ég týndi barninu, eins og gerist gjarnan ef ég á börn í draumum mínum, fattaði að ég var ennþá ólétt og í framhaldi af því að ég hafði týnt barni einhvers annars og vissi ekki hvers... Hvað um það.)

Er á Egilsstöðum í foreldrahúsum. En Rannsóknarskipið hélt til byggða núna rétt áðan. Hér er brostið á með sumarleyfisblíðu (norðaustan hryllingi) þannig að ekki ætlar að viðra vel til þvotta á oggufatnaði sem ég er búin að vera að grafa hér upp. (Við höndlun á honum held ég reyndar að ég hafi fengið mína fyrstu: "Jiiiihvaððettersætt!"-tilfinningu.)

En það er nú vissara að hrista svoleiðis af sér þar sem verkefnið sem liggur aðallega fyrir hér er að skrifa einkar kaldhæðna og andstyggilega kafla í jólaleikrit.

2 ummæli:

Litla Skvís sagði...

Fékkstu ekki bæklinginn "Mæður mega ekki hafa húmor, sérstaklega ekki fyrir sjálfri sér" þegar þú fórst í fyrstu mæðraskoðunina?
Þvílíkt klúður!
Ekki skrítið að fólk sé að drulla á sig hérna á blogginu þínu!




:)

Sigga Lára sagði...

Nei, en þetta er kannski í möppunni sem gleymdist að láta mig hafa þangað til í síðustu mæðraskoðun. Í henni eru nefnilega allar upplýsingar um hvernig á að vera óléttur. Það eina sem ég er búin að lesa í henni var bæklingur um tilfinningar feðra sem ég las upphátt fyrir Rannsóknarskipið og við gerðum mikið grín að...

Sennilega er ég að gera þetta allt afturábak.