15.9.05

Meðvirkni Guðs?

Í framhaldi af Biblíuumfjöllun Varríusar fór ég að grufla útí nokkuð sem mér datt í hug einhvern tíma í sumar. Spratt af vangaveltum um eðlismun hins kristna guðs og norrænna goða.

Lengi vel botnaði ég ekki almennilega í guðunum grísku, norrænu og hindí. Það er að segja, skildi ekki alveg hvernig trú á slík virkuðu. Komst síðan að eftirfarandi:

Hinir norrænu, grísku og hindí eiga það vissulega sameiginlegt með okkar að vera eilífir og yfirnáttúrulegir, held ég, og geta gert hvað sem þeir vilja. Og gera það. Og í því liggur munurinn. Þeir eiga líf. Þvælast um, sofa hjá, fara í fýlur, og eru stundum ekkert að horfa eftir því hvort maður sé að þóknast þeim eða ekki. Það er alveg hægt að byggja hof og stunda hvaða blót sem er, en virki það ekki þarf ekki að vera nein vitræn skýring á því. Goðin geta hreinlega haft annað að gera. Eða verið einhvers staðar á fylleríi. Eða að slást eða r***. Eða í fýlu.

Á meðan okkar Guð, þessi eini sem er mikið í mun að við vitum ekki um hina, virðist ekki hafa neitt betra við tíma sinn að gera en að skapa jörðina og mannkynið og lifir síðan bara algjörlega fyrir það. (Og einhvern veginn er það rökstutt þannig að honum þyki svona ógurlega kæfandi vænt um börnin sín. Veit um svoleiðis foreldra. Þeir eru mjög andlega vanheilir.) Ef bænum til Hans er ekki svarað STRAX þá er það sko náttúrulega auðvitað hluti af stórri stórri áætlun sem Hann er að framfylgja, en vill ekki segja hver er. Ennfremur sér Hann ALLAR misgjörðir og ef eitthvað slæmt gerist þá er það sko alveg pottþétt Guð að slá á puttana. Og mér heyrist hinn islamski Allah vera mjög á sömu línu. Kannski eðlilegt að á milli fylgismanna þeirra félaga, sem báðir þykjast einir sinnar tegundar, skuli stundum slá í brýnu? (Hef reyndar grun um að þarna séu fylgismennirnir fífl og um einn og sama himnadrauginn sé að ræða.)

Eftir að ég fór að skilja goðin norrænu, grísku og hindí, komst ég að því að ég skildi þau betur en eingyðið okkar. Í okkar trú er vissulega kannski boðið upp á betri þjónustu, en hún kostar líka meira. Lífstíðarhundstryggð, hvorki meira né minna, og ef maður er óvart á aðeins rangri hliðargötu, ef kaþólikkar til dæmis eða gyðingar hafa rétt fyrir sér, þá er maður nú aldeilis í vondum málum.

Og svo er það auðvitað þetta með sköpunina. Ef fjölgyðin skópu manninn eða jörðina, þá var það trúlega í hjáverkum eða óvart. Eða bara einhver svona skyndihugdetta. Sköpunarsaga Hindúa, Mhabarata, er mjög fyndin. Hún er löng og flókin, með stríðum og útlegðum manna sem meira og minna spruttu upp af ökrum eða eitthvað þannig, og tekur yfir einhver hundruð ára og í lok hennar eru allir dauðir. Nema ein kjeelling, einhver algjör aukapersóna úti í horni, sem reyndist allt í einu vera ólétt eftir guð í vélinni og gat af sér mannkyn allt.

Mér þykja eiginlega sköpunarsögur fjölgyðanna skemmtilegri en sagan af okkar Eina sem eyddi einni viku í að baka sér eilíf vandræði. Og fannst það gott!

Er þó í seinni tíð að aðhyllast Búddhatrú meira og meira. Ef trú skyldi kalla. Þar á bæ eru menn nefnilega ekki með miklar hugmyndir um eilífan guð. Hins vegar stunda menn innhverfa íhugun og skoða heimspekirit Búddha og eftirkomenda. Sem fjalla mest um að menn skuli slappa af og reyna að hafa vit fyrir sér. Og mér þykja stytturnar af litla feita kallinum sniðugar. Miklu fallegri til húsprýði en þessi dauði eða deyjandi á krossinum, þó hann sé vissulega kannski meira hönk, sérstaklega ef maður er fyrir síðhærða rokkgoðumlíka karlmenn.

Svo er það þetta með karmað. Mér finnst það skemmtilegt og er viss um að að baki því sé einhver alheimsk efnafræði sem gerir að verkum að menn uppskera gjarnan eins og menn sá. Ekki alltaf, þó. Ekkert er alltaf. En þetta tengist því hvernig galdrar virka, líklegast. Hvort þetta virkar eins og búddistar segja inn í eftirlífið skal hins vegar ósagt látið. Sé ekki tilganginn með því að trúa staðfastlega á framhaldslíf, eða ekki. Þetta kemur allt í ljós.

En ég verð að viðurkenna að sérgirni himnadraugsins okkar fer stundum dáldið í taugarnar á mér. Það er þetta með boðskapinn: Gerðu eins og ég segi þér, eða hafðu samviskubit ella. Og svo er það ekki einu sinni nóg, taki maður erfðasyndina inn í dæmið. Og svo notar hann líka samviskuklemmur illra foreldra: Heyrðu, ég fórnaði syni mínum, þarna! Já, og skammastu þín svo.

Og nú er ég líklegast búin að guðlasta svo rækilega að himnadraugurinn, páfinn, Gunnar í Krossinum og Snorri í Betel eru líklegast allir búnir að úthýsa mér. En karmað gæti hafa skánað...

2 ummæli:

Varríus sagði...

Skemmtilegt,

en Hindúismi sker sig frá þeirri grísku og norrænu á þann afgerandi hátt að vera lifandi trú í voldugu ríki, og þar eru vissulega öfgafullir hópar heittrúaðra sem brenna moskur og drepa múslima af trúarástæðum.

Þrátt fyrir hvað goðin eru laid back.

Sigga Lára sagði...

Já, en ég vil nú reyndar ekki meina að þeir tvífarar Guð og Allah hvetji til slíx heldur...