31.12.05

Og svo hamingjan

Og þetta var árið sem á brast með fjölskyldulífi. Ekki hafði ég nú fyrirframgefnar hugmyndir um að leið mín myndi óhjákvæmilega liggja þangað á endanum, en í ljós kom, heldur betur. Með sambúðarupphafi með Rannsóknarskipi í ágúst eignaðist ég eiginlega eitt barn, hann Róbert Smábát, sem skolaðist upp í hendurnar á mér, 9 ára og vel upp alinn, fyrir skólabyrjun. Þá þegar var líka búið að leggja í fyrir einum heimabrugguðum, sem ég vona bara að eigi eftir að taka eldri uppeldisbróður sinn til fyrirmyndar í sem flestu.
Og svo þróaðist auðvitað samband okkar Árna míns í skemmtilegri áttir en mig hefði nokkurn tíma dreymt um. Eins og sannir Íslendingar gerum við nú samt allt í öfugri röð, fyrst kom óléttan, þá sambúðin og síðast trúlofunin, og barnið sem nú er rétt ókomið í heiminn mun að sjálfsögðu fæðast í lausaleik. Eins og 64% barna sem fæðast á Íslandi. Maður fer nú ekki að skera sig úr!
En, mikilvægasta uppgötvun ársins 2005 er tvímælalaust þessi:
Eilíf ást og hamingja er hreint ekki sem verst. Heilsubót á sál og líkama.
Hvern hefði grunað...? Ég sem var búin að láta ljúga í mig, öll þessi ár, að þetta væri alltaf “einhver vinna” og að “í öllum samböndum væru vandamál”. Og síðast en ekki síst: Öll kærustupör rífast!
Já, það er nú margt bullið sem maður ætti ekki að hlusta á.

Engin ummæli: