Rannsóknarskip og Smábátur bruggðu sér í leikhús, á Þetta mánaðarlega, í tilefni frídax verkamanna (og grunnskólabarna) á morgun. Í fjarveru nokkurs sem ég nennti að horfa á í sjónvarpi (eitthvað menningarklám á frönsku í RÚV, úgh) fór ég í annað mánaðarlegt, að fara í gegnum föt Freigátunnar, pakka niður of litlu, og taka upp úr "ofstóru" kössunum það sem allt í einu passar. Tók líka í leiðinni mikla og óþægilega ákvörðun.
Eftir því sem sú litla þýtur í gegnum stærðirnar, þá er alltaf eitthvað af fötum sem "óvart" er aldrei notað. Mig er farið að gruna óþægilega hvers vegna. Þess vegna er ég búin að stofna hann. Ljóta kassann. Öðru nafni Kassa Hinnar Vondu Samvisku. Hann er fullur af fötum sem ég hef ekki nennt að klæða Freigátuna í vegna þess að mér þykja þau LJÓT. Þetta eru alltsaman notuð föt (kæru gestir, ekki óttast að gjafir ykkar séu í þessum kassa, hún sjálf hefur ekki fengið neitt ljótt ;-). Enda er engin ástæða til að brúka ljót föt á prinsessuna, sem á trúlega 365 alklæðnaði af hinum álitlegustu klæðum.
En í ljóta kassanum hvílir, ásamt öllum ljótu fötunum, mín vonda samviska. Ekki hendir maður þessu. Þá er maður ekki að huxa um vesalings allsberu börnin í útlöndum. (Eða á Íslandi, ef út í það er farið.) En ef ég gef þetta nú í einhvers konar hjálparstarf? Er ég þá ekki að sýna af mér hryllilegan hroka? Að reikna með að aðrir vilji klæða börnin sín í föt sem mér þykja of ljót á mína litlu ofdrekruðu orma? Er ég þá að dæma annarra manna börn til sálarskaða af sinnepsgulu og margþvegnu? Hvað skal gjöra? Er einhver leið til að lenda ekki beint til Helvítis fyrir þetta, hvernig sem maður snýr sér?
30.4.06
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
já. fólki sem er kalt lætur sér yfirleitt standa nokk á sama þó fötin sem halda hita séu ljót. svo er nú misjafn smekkur mannanna, sinnepsgult þykir bara prýðislitur á mörgum heimilum. farðu bara í rauða krossinn með góðri samvisku. ég skil þessa komplexa hins vegar afar vel. treysti á góðan smekk fólks sem hefur hugsað sér að fata martini, annars gæti maður orðið svona fawninz..:þ
Sem betur fer er nokkuð örugglega til fólk sem finnst þú hafa afleitan smekk. Einhverjir hönnuðu þessa leppa svo þar hefurðu sönnunina.
Annars get ég kennt þér ráð sem fjölskylda mín notaði í mörg ár. Í hvert sinn sem einhver þurfti að losna við eitthvað var mér fært það með orðunum "þú hendir þessu þá bara ef þú getur ekki notað það".
Semsagt, troddu þessu bara upp á Nönnu og láttu hana um að koma þessu til Rauða Krossins.
jávarþaðekki....!?
Þú ert næst í röðinni... ;)
Eins manns rusl er annars manns gull... Eða eitthvað þannig. Svo að ekki hafa áhyggjur.
Skrifa ummæli