6.5.06

Húff

Við Freigáta vorum að koma af bandalaxþingi. Það gekk eiginlega vonum framar. Reyndar villtist ég á leiðinni og ætlaði aldrei að finna helv... félaxheimili Seltjarnarness. En það gekk að lokum og Freigátan var bara frekar þæg, held ég. En þetta er nú skrítið þing. Aðallega lyktlega séð. Hérna áðurr fyrr hefði ég, á þessum tíma þings, átt að vera farin að lykta eins og öskubakki með smá kaffikeim, og huxanlega smá fyrirmatarbjór. Í staðinn er ég bara með ungbarnaælulykt og táfýlu.

Svo er óneitanlega pínu leiðinlegt að missa af hátíðarkvöldverði. En ég datt nú eiginlega alveg íða fyrir tvö ár á þinginu í fyrra. Var, enda líka, að drekka fyrir tvo, eins og síðar kom í ljós. :-/

Best að monta líka mitt heimafólk. Gagnrýni á þætti gærkveldsins var inni í daxkrá fundarins í dag. Freigáta leyfði mér reyndar ekki að hlusta á allt, en þó heyrði ég mágfólk mitt fá ágætisdóma og eins mitt leikfélag. Það eina sem þeir feðgar, Þorvaldur Þorsteins og Þorsteinn Bacmann höfðu út á Hugleik að setja var mín eigins leikstjórn. Og ég var ekki fyrr búin að klappa sjálfri mér á kollinn og raða aftur upp sjálfstraustinu á grundvelli reynsluleysis, að nýgræðingurinn sú ólétta í næsta húsi kom, sá og hreppti titilinn "Besta sýning hátíðarinnar" með frumraun sinni í leikstjórn og skriðtæklaði þar með undan mér þá afsökun. (Hefur enda talsverðan skriðþunga þessa dagana.)

En félagið má nú samt vel við una. Átti tvær sýningar af þremur sem útvaldar voru bestar. (Hefði kannski fengið fullt hús með skárri leikstjórn á Kratavari? Og kannski bara uppskorið úlfúð og öfund annarra félaga? Sko hvernig ég Pollýanna?)

Allavega, þetta var skemmtilegt. Og þá er bara að bíða eftir sms-i með upplýsingum um hverja Þjóðleikhúsið valdi sem sem Athyglisverðustu Áhugasýningu Ársins. Þar kemur Hugleikur líka til greina. Tvisvar.

Engin ummæli: