19.6.06

Sveitó

Gleðilegan 19. júní. Sem ku vera einhvurslax kvennadagur.

Nú erum við flutt úr Reiðholtinu í Svarfaðardalnum. Þar var nú aldeilis ljómandi að búa. Ég skrauf og skrauf og komst í gegnum fyrsta uppkast af leikritinu mínu. Svo misnotaði ég vitaskuld þessa fínu leikara sem ég var með þarna og lét lesa það fyrir mig. Og það var svaka fínt að heyra það á þessu stigi málsins og ég veit núna um ýmsar frekar stórar lagfæringar sem ég þarf að gera.

Freigáta naut líka lífsins í Svarfaðardalnum og lét sér vel líka að hafa 40 manns til að dúllast í sér í tíma og ótíma. En núna eftir að við komum í Eyjafjörðinn er hún líka svo uppgefin að hún hefur varla vaknað. Hún er farin að borða graut og ýmis mauk og hefur matarsmekk hinn furðulegasta. Gulrótarmauk finnst henni best í heimi, en hún fussar við banönum og perum og einhverju ávaxtagumsi. Sem mér finnst nú skrítið. Gulrótarmauk lyktar alveg viðbjóðslega.

Nú erum við sumsé komin í Brekku í Eyjafjarðarsveit, föðurhús Rannsóknarskips, og erum í góðu yfirlæti. Og ég er búin að fá að gefa heimalningunum. Freigáta er líka búin að hitta þá, en henni varð nú ekki alveg um sel... Smábátur kemur svo til okkar á morgun en hann hefur huxað sér að verða 10 ára gamall á laugardag. Þetta er að verða alveg harðfullorðið.

Og nú er loxins komið að því að við getum farið að fylgjast með HM af einhverju viti. Ég ætla alltaf að halda með landinu sem er lengra í burtu. Tógó - Sviss klukkan 2! Jeij!

Í dag þurfum við líka að fara til Akureyrar, afhenda eina afmælisgjöf, kaupa aðra, og versla appelsínugula peysu handa Freigátu, sérhannaða til að borða gulrótarmauk í.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ hó og takk fyrir síðast. Mundi alltí einu eftir öðru nafni sem mér datt í hug-(Tapað-fundið)- er ekki alltaf gott að fá meira í gagnabankann? Gleymdi bara að segja þér í öllu heimferðarhafaríinu. Bið að heilsa Gyðu.
Kv. Gilitrutt

Sigga Lára sagði...

Jú, takk, Gilitrutt mín. Og Gyða þakkar ógurlega vel fyrir óróann, en hann er alveg langskemmtilegastur. Verst þykir henni þó að fá ekkert að smakka á honum, en því tími ég ekki.