31.8.06

Djísuss Kræst!

Það er nebblega það. Það er hægt að fá Uppreisn Æru hjá forsetanum. (Það er reyndar líka hægt að fá hana hjá Ármanni Guðmundssyni og trúlega hérna í handritasafninu...) Og þar með er maður kominn með óflekkað mannorð. Mér finnst þetta nú soldið eins og að kaupa sér syndaaflausn hjá kaþólsku kirkjunni. Komm on! Ef maður skítur á sig, og skiptir svo um buxur, breytir það ekki þeirri staðreynd að maður skeit á sig. Og maður er ekkert með óflekkað mannorð meðan allir vita að maður er steliþjófur. Mér finnst að eina leiðin til að Árni Jónsen geti farið til að fá einhverskonar uppreisn sé að skila aftur grjótinu sem hann stal. Og ef þessi fordómafulla risaeðla fer aftur á þing er ég flutt til útlanda. (EKKI Vestmannaeyja.)

Í öðrum fréttum, í dag gerist sá stórviðburður að ég held mitt fyrsta barnaafmæli. Smábátur, sem varð 10 ára á Jónsmessu, fær að bjóða öllum bekknum í pulsupartí. Ku eiga að verða mikið stuð. Ég veit ekki baun hvað ég er að fara útí. En sting af á höfundafund hjá Hugleiki klukkan 19.00 eða uppúr því.

Og hún Halla mín er farin að blogga. Það er kominn linkur á hana í linkalistann.

Og, í dag, klukkan 11, fer Hogwarts-lestin frá brautarpalli 9 og 3/4. Nú vita alls ekki allir um hvað ég er að tala. Lagðist í njósnir um daginn og mér sýnist vera orðrómur á kreiki um að 7. Harry Potter bókin komi út þann 07.07.07 sem er nú bara svo kúl að ég treysti mér næstum alveg til að bíða eftir því.

Og, var að rekast á þau tíðindi, á förnum vegi í bloggheimum, að nú væri farið að samlesa leikritið mitt fyrir austan. Einhvernveginn gleymi ég alltaf að það sé í gangi. Nú þarf ég að fara að njósna og forvitnast. Og vita hvort ég þarf ekki að laga eitthvað.

4 ummæli:

Hugrún sagði...

það heitir reyndar uppreist, en ekki uppreisn, æru, æran er sumsé reist upp en gerir ekki uppreisn

Berglind Rós sagði...

Mér finnst uppreist asnalegt orð. En þetta er líka yfirhöfuð asnalegt, hvort sem það heitir uppreist, uppreisn, upprisa eða hvað. En önnur fyrirsögn vakti kátínu mína, stundum þarf ekki mikið til að skemmta manni :-) http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1221348

Sigga Lára sagði...

Úr kommentakerfi Varríusar, Sævar Sigurgeirsson tjær sig:

"Það sem kemur mér hins vegar á óvart í öllu þessu máli er notkunin á orðinu "uppreist" sem hver fjölmiðillinn étur upp eftir öðrum (og m.a.s. vinur minn Varríus). Skv. áðurgreindri Marðarbók (eða hvort það var í bók forverans Árna Bö.) þá þýðir uppreist með té-i eingöngu uppreisn í merkingunni "samblástur gegn yfirvöldum" eða "tilraun til byltingar". Uppreisn æru er hins vegar bara til með enn-i."

Ég er fegin. Alltaf gott að þurfa ekki að læra meiri málfræði...

Nafnlaus sagði...

Þeir sem stela kommentunum mínum af annarra manna bloggum geta komið til mín og fengið uppreisn æru.

:)

Úr því fólk er farið að beita þessu fyrir sig sem sannleikanum í málinu þá gerði ég framhaldsrannsókn. Kom mér yfir nýjustu útgáfu af Íslenskri orðabók (sem við félagarnir köllum Marðarbók) og þegar nánar er að gáð, má sjá að orðið uppreist er þýtt sem uppreisn ... sem gæti þýtt að það hafi sömu merkingu og uppreisn í öllum merkingum þess orðs. Svo nú veit maður ekkert hvað maður á að halda, annað en það sem allir hljóta að vera sammála um: að uppreist er ótrúlega asnalegt, fornt og uppskrúfað orð og fellur eiginlega engan veginn að nútímamálvitund. Það að reisa e-ð upp heitir uppreisn. Skv. skýringuHugrúnar ætti efnaupplausn að heita uppleyst. Hún uppleystin. Af því hún er leyst upp en hleypir ekki endilega öllu í upplausn. Það má vel vera að skýringin sé að e-u leyti rétt en fyrir mér gengur hún samt engan veginn upp. Og uppreist hljómar bara ekki eins og nafnorð í mínum huga.

Þökk sé þeim er hlýddu. Góðar stundir.

:)