24.5.07

Samtímadýrkun

Í dag bloggar Viðar Eggerts um þroskadýrkun. (Bloggið hans er btw. frábær lesning á hverjum degi.) Þroskadýrkun felst í því að vilja helst vera eldri en maður er og fagna hverjum degi þar sem hann færir mann nær því. Öfugt við æskudýrkun.

Ég held að ég sé haldin samtímadýrkun.

Mér fannst hrrroðalega skemmtilegt að vera barn. Og leika mér úti og inni og vera á leikskólanum, og svo í skólanum, og gera allt sem því fylgdi. Mér fannst líka skemmtilegt að vera unglingur. Þá var öll veröldin spennandi og alltaf eitthvað nýtt að gerast. Eins voru menntaskóla- og háskólaárin hrrroðalega skemmtileg, með öllu djamminu og vitleysunni sem því fylgdi, dramaköstum, blankheitum, lærdómsleti og pizzuáti. Svo var gaman að búa í útlöndum. Skipta svona alveg um umhverfi og félagsskap og enduruppgötva sjálfan sig þar sem enginn þekkir mann. Það var líka gaman að koma aftur heim, rifja upp hvað Ísland er best og vera allt í einu orðinn þrítugur.

Og allt er að dásamlegt núna. Mér finnst frábært að vera gift og tveggja barna móðir og takast á við uppeldið, íbúðakaupin og allt sem því fylgir. Mér finnst vinnan mín æði, en hlakka samt til að fara í nám í haust og athuga hvað framtíðin ber síðan í skauti sér. Svo er ég líka alveg til í að eignast miklu fleiri börn, ef Alheimurinn lofar.

Það verður líka meiriháttar að sjá börnin vaxa úr grasi og athuga hvað verður úr þeim. Verða allt í einu orðin tvö í kotinu. Þá er alls ekki ólíklegt að við förum að læra samkvæmisdansa (ef við verðum ekki búin að því fyrr) og fara í safna- og leikhúsferðir til útlanda, alveg í akkorði. Og leika miklu meira með Hugleik. Í ellinni ætla ég svo að hafa tíma til að lesa allar bækurnar og horfa á allar myndirnar.

Ég held ég sé hvorki með æsku- né þroskadýrkun.
Hins vegar hafa mér alltaf þótt svakalega skemmtilegir og spennandi tímar Núna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta var Æðislegt blogg! Algjörlega sammála, það er Núið sem gildir!

Nafnlaus sagði...

Ég er steingeit geri fastlega ráð fyrir því að efri árin verði skemmtilegust. Þá ætla ég að spila bridds á fimmtudögum og golf á sunnudögum og vinna hálfan daginn á pósthúsi.

Raunhæf markmið eru einmitt þau sem maður nær.

Og svo ætla ég að eignast fullt af barnabörnum og gefa þeim kakó og lummur og lesa fyrir þau þjóðsögur Jóns Árnasonar og Pál Vilhjálmsson. Og Sitji Guðs englar. Og Elíasbækurnar.

Og ef þau eru óþekk og leiðinleg ætla ég bara að skila þeim í foreldrahús. En hehehe... ég er með plan. Alltaf þegar ég kveð þau eftir skemmtilega ömmudvöl ætla ég að gefa þeim peninga, þá halda þau nefnilega út og halda sér í skefjum.

Múúhoohaahaa!

Kveðja Heiða Skúla