7.10.07

ÚT!

Eftir margra vikna dvöl inni vegna hors, lærdóms, og/eða skítaveðurs, eyddum við Freigáta seinnipartinum utandyra! Það var nú gífurlega langþráð og kærkomið. Enda settumst við að yfir á Drafnarborg og Freigátan framkvæmdaði gífurlega með vörubílinn sinn í sandkassanum. Ég er ekki frá því að það hafi verið bæði virkjað og álverað. Á meðan var sungið hástöfum, mestallan tímann. Enda er hún búin að borða síðan við komum inn.

Við versluðum líka dýrindis lamb í kvöldmatinn með öllu tilheyrandi og ætlum, svona einu sinni að hafa almennilegan mat og meira að segja kjet. Smábátur og félagar voru reknir afturábak út í góða veðrið um miðjan dag, og hafa ekki sést aftur. (Sem þýðir reyndar líklega að þeir hafa stungið sér inn og í tölvuna hjá einhverjum öðrum. Þekki mar sitt heimafólk...)

Allavega, meðan Freigátan svaf gerði ég ofurtiltekt á og eldhúsinu, svo nú er hið langþráða næstum ekkert á eldhúsbekkjum og víðasthvar. Til stendur að taka úr uppþvottavélinni og ganga frá þvottinum. Öjmingja Rannsóknarskip er búinn að vera á spani í allan dag, að hjálpa Huggu syss að flytja og svo er hann að vinna, sennilega alveg fram að kvöldmat. Bezt að hafa heimilið spegilgljáandi og lambasteik á borðum þegar hann kemur heim, svo hann sjái nú enn einu sinni hvað hann er fantavel giftur.
(Ekki víst að hann verði síðan mikið var við það fyrr en þessi skólaönn er búin...)

Og Stundin okkar er að byrja í dag. Ný og óendursýnd. Þess er einnig beðið með talsverðri óþreyju.

Engin ummæli: