7.1.08

Geðveikin

Ég hef verið með í bakhöfðinu að skrifa sérstakan áramótapistil um geðveikina. Geðveikisárið 2007 var nefnilega mjög svo athyglivert hjá mér.

Árinu 2006 lauk ég nefnilega með smá hugrænni atferlismeðferð hjá sálfræðingi. Það reyndist vera alveg svakalega ljómandi. Kannski erfitt að útskýra svo sem nákvæmlega hvernig það virkar. Að sumu leyti er það eitthvað í ætt við það sem konan sagði, um að maður veit stundum ekki hvað maður hugsar fyrr en maður heyrir hvað maður segir. 

Ég hef heyrt þeim misskilningi fleygt að í slíkum meðferðum sitji sálfræðingur og poti með sálrænum prjónum í öll manns andlegu mein og láti mann grenja og gubba yfir öllu því hræðilega og dramatíska sem fyrir mann hefur komið í lífinu. En það er nú allavega ekki mín upplifun af dæminu. Hún sálfræðingur sagði nú yfirleitt bara mest lítið. Ef hún spurði að einhverju, eða velti upp einhverjum vangaveltum, þá var það yfirleitt eitthvað sem mér fannst spennandi að spekúlera í. 

Og það er það þægilega við að spjalla við fagmanneskju sem maður þekkir ekki neitt, henni kemur málið ekkert við. Hún er búin að læra ýmislegt varðandi hvernig hugar mannskepnanna virka, og líka að ekkert er algilt í þeim. Og svo lét hún mig líka hafa nokkur mergjuð heimaverkefni, sem ég er eiginlega ennþá að nota. Eins og bara að taka eftir því hvort mér þykja einhver dagleg störf eða einhverjir tímar dags erfiðari en aðrir fyrir sálina í mér. Og spekúlera í því hvort ég geti þá ekki breytt eitthvað skipulaginu á því. Reyna sem sagt að horfast í augu við hvað manni finnst erfitt, spekúlera í hvers vegna (stundum auðveldast hlutirnir við það eitt) og endurskipuleggja sig í kringum þá, ef þarf. Virkaði ágætlega.

Hún sagði mér líka að fólki gæti nú bara víst batnað af þunglyndi og svo loksins tókst mér að skilja út á hvað þetta með jákvæða hugarfarið gengur og upprætti mína eigin fordóma gagnvart glöðum öjmingjum.

Heimurinn fórst mest lítið út af smámunum á árinu 2007. Og ef hann gerði það var ég mjög meðvituð um að hann væri ekkert að því í alvöru. Ég tók til dæmis smá dýfu í sumar, og hjálpaðist þar sennilega að hin nýbyrjaða ólétta og Frakklandsferðin í upphafi hennar, en Montpellier, komst ég að, vekur mér þunglyndi. Einhvern tíma ætlum við Rannsóknarskip nú samt að fara þangað aftur, bara tvö, í leikhús- ópera- safna- og pöbbaferð. Það verður ekkert þunglyndi með í för þá.

Þetta var sem sagt hreint ekki þunglyndilaust ár. En ég virðist kunna betur að greina það frá raunverulegum katastrófum lífsins. (Sem eru færri en maður heldur.) Og ég held að það sé byrjunin. Og þar með fara líka dramaköst alveg lengst undir meðal-ársframleiðslu.

En maður má ekki hætta að fjalla um skrímslið þó vel gangi. Þá er líklega einmitt nauðsynlegt að reyna að skrásetja og kryfja, ef það skyldi geta orðið einhverjum til gagns. Því ekki eru nú aldeilis allir eins heppnir og ég virðist vera í ár og risastórfjölskyldan mín hefur orðið illa úti í baráttunni á undanförnum árum, reyndar svo mjög að nokkurt mannfall hefur orðið.

Út frá því hafa vissulega spunnist ýmsar umræður. Kannski helst vilja menn vera að geta sér til um orsakir þunglyndisins. Ég held að bæði aðstandendur og sjúklingar verði að gera sér ljósa grein fyrir því að lífshlaup sjúklingsins hefur oftast minnst með ástand hans að gera. Fólk getur átt erfiðustu ævir sem um getur og tekist á við hamfarir og sorg án þess að finna nokkurn tíma fyrir þunglyndi. Að sama skapi geta menn átt allt sem þarf til að gera gott og hamingjusamt líf og samt fallið fyrir hamri þunglyndisins. 
Það er nauðsynlegt að átta sig á sjúkdómseðli sjúkdómsins. Hann getur verið eins og þrálátt kvef eða eins og bráðdrepandi krabbamein. Stundum á hann kannski rætur að rekja til einhvers, en um það er yfirleitt ómögulegt að segja. Aðstandendur geta gert margt rétt. En ég held að þeir geti í rauninni aldrei gert neitt mjög rangt. Sektarkenndin held ég sé þó fylgifiskur mjög margra aðstandenda þunglyndissjúklinga en nærvera hennar í þessu samhengi er oftast á misskilningi byggð. 

Enginn veit almennilega hvaðan þunglyndið kemur.
En það borgar sig að láta einskis ófreistað til að láta hann fara.

1 ummæli:

Hugrún sagði...

Jú ég er búin að finna blóraböggul fyrir öll mín andlegu vandamál, (kvíða og einhverfueinkenni). Allt stafar þetta af ungbarnasprautum. Það getur ekki verið neitt annað, það var sprautað í okkur óyndi og ófullkomleiki.